Fyrir stjórn UMFÍ liggur tillaga um að beina þeim tilmælum til íþróttafélaga, að sýna fyllstu varkárni og ábyrgð þegar kemur að sölu áfengra drykkja á viðburðum.
Þetta eigi sérstaklega við á kappleikjum þar sem börn og ungmenni séu á meðal áhorfenda.
Tilmælin má finna í þingskjali sem unnið hefur verið í aðdraganda sambandsþings UMFÍ sem haldið er í Stykkishólmi 10. til 12. október.
Bent er á að ljóst sé að sala áfengra drykkja eigi enga samleið með barna- og uppeldisstarfi en taka verði tillit til þess að starfsemi íþróttafélaga sé miklu viðameiri en svo að hún snúi aðeins að börnum og unglingum.
„Víða sinna íþróttafélög mjög mikilvægu félagslegu hlutverki og eru viðburðir félaganna, hvort sem er átt við kappleiki meistaraflokka eða önnur hátíðarhöld, jafnan með fjölmennustu mannamótum hverrar sveitar. Viðburðir íþróttafélaga eru jafnframt hluti af afþreyingarmarkaði og þurfa því að standast samanburð við aðra menningar- og afþreyingarviðburði, bæði hvað varðar þjónustu og skipulag,” segir í tillögunni.
Mælst er til þess að:
Fram kemur í greinargerð að á sambandsráðsfundi UMFÍ í fyrra hafi verið samþykkt að skipa starfshóp í tengslum við sölu áfengis á íþróttaviðburðum. Honum var falið að skila tillögu á þingið í ár.
„UMFÍ leggur áherslu á að íþróttahreyfingin í heild sinni gefi út tilmæli og á þingi ÍSÍ í vor var samþykkt tillaga um nefnd um þessi mál. Þetta er innlegg í þá vinnu af hálfu UMFÍ með ósk um náið samstarf við ÍSÍ um málið,” segir í greinargerðinni.