Vilhjálmur endurkjörinn formaður

Vilhjálmur var einn í framboði til formanns og var hann …
Vilhjálmur var einn í framboði til formanns og var hann því sjálfkjörinn til næstu tveggja ára. Ljósmynd/SGS

Vilhjálmur Birgisson var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambands Íslands á 10. þingi þess sem lauk í Hofi á Akureyri í gær. Vilhjálmur var einn í framboði til formanns og var hann því sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sambandsins.

Aldrei fundið fyrir jafnmikilli samstöðu

Á þinginu voru samþykktar sjö ályktanir um byggðamál, starfsemi PCC á Bakka, húsnæðismál, kjaramál, leikskólamál, lífeyrismál og starfsemi erlenda vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér á landi.

Vilhjálmur þakkar á facebooksíðu sinni í dag það traust sem honum er sýnt og í færslunni tekur hann niður í ræðu sinni á þinginu þar sem hann sagði meðal annars:

„Hvorki stjórnvöld né atvinnurekendur geta hunsað okkur ef við stöndum saman sem eitt afl. Ég hef setið mörg þingin í áranna rás og hef í raun aldrei fundið fyrir jafnmikilli samstöðu og nú – og samt krafti – og það skiptir öllu máli.“

Lýkur hann máli sínu á samfélagsmiðlinum með þessum orðum:

„Samstaðan er okkar sterkasta vopn – baráttan heldur áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert