Vill siga köttunum á mýsnar á Húsavík

Kolbrún Sara Larsen, sem fluttist frá Akureyri til Húsavíkur, segist …
Kolbrún Sara Larsen, sem fluttist frá Akureyri til Húsavíkur, segist ótrúlega sár yfir að hafa þurft að láta kisurnar sínar frá sér. Samsett mynd/Aðsend/mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég er ótrúlega sár,“ segir Kolbrún Sara Larsen sem fluttist frá Akureyri til Húsavíkur og þurfti að láta kisurnar sínar frá sér.

Kolbrún átti útikisur en á Húsavík er lausaganga katta bönnuð. Í samtali við mbl.is segist Kolbrún alveg hafa vitað að lausaganga katta væri bönnuð á Húsavík en veruleikinn hafi slegið hana utan undir í gær þegar hún fann mús í húsinu sem fjölskyldan býr í og er að gera upp.

„Það var svo sem okkar ákvörðun að flytja hingað en ég átti tvær kisur sem ég varð að láta frá mér því þær voru útikisur. Ég vildi ekki loka þær inni.

Svo uppgötvum við í gær að það er komin mús inn til okkar. Þannig að ég bara fríka út og verð frústrireruð yfir því að verið sé að sterilíseara okkur í þessu samfélagi af köttum.“

Kettir halda músum frá

Kolbrún birti færslu í umræðuhóp Húsvíkinga á facebook og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Á sjötta tug ummæla hafa verið rituð við færsluna og flestir lýsa músagangi í sínu nærumhverfi sem í einhverjum tilvikum hefur valdið tjóni.

Einhverjir hafa ekki orðið varir við músagang en Kolbrún segist sjá augljósa tengingu á milli banns við lausagöngu katta og aukins músagangs.

„Ég tel mig vera alveg vissa um að mýsnar færu, eða væru alla vega á undanhaldi ef kettirnir fengju að ganga lausir. Þeir halda músunum náttúrulega frá. Þannig að mér finnst þetta nú ekkert voðalega flókið.“

Segir Kolbrún það sorglegt að fólk þurfi að láta kisurnar sínar frá sér af því að það vilji búa í ákveðnu samfélagi. Fólk sem kannski fá þar vinnu eða ákveði að flytja af öðrum ástæðum.

„Að það þurfi að láta dýrin sín frá sér. Það er eitthvað svo skrítið – þú veist – það er komið svo ótrúlega langt frá náttúrunni,“ segir Kolbrún.

„Engar rannsóknir sem styðja það“

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, segist í samtali við mbl.is aðspurður ekki kannast við þessa umræðu í samfélaginu en Norðurþing er eitt fárra, ef ekki eina sveitarfélagið sem bannar lausagöngu katta.

Segir hann vissulega hafa verið skiptar skoðanir um málfefnið og segir þá sem ósammála eru um mál vanalega hafa hærra en hina.

„Mér skilst nú að það sé bara mikill músagangur yfir höfuð víða á Norðurlandi þannig að þetta tengist ekkert endilega.

Ég veit ekki hvort það sé meiri músagangur á Húsavík sem þéttbýlisstað heldur en Ólafsfirði, Siglufirði eða annars staðar og veit ekki til þess að það séu neinar upplýsingar til um að það sé meira af músum á Húsavík heldur en annars staðar af því að lausaganga katta er bönnuð.

Ég held að það séu engar rannsóknir sem styðja það,“ segir Hjálmar.

Engu að síður lýsa bæjarbúar talsverðum músagangi í ummælum undir færslu Kolbrúnar. Sumir segja frá fleiri en einni mús í húsum sínum og aðrir hafa orðið fyrir því að mýs skemmdu leiðslur í bílum þeirra.

Einhverjir benda á lausnir eins og músagildrur og músafælur en kona ein segist hafa sett slíka fælu í bílinn sinn og ekki séð þær síðan.

Önnur kona greinir frá því að ef köttur er tekinn í lausagöngu á Húsavík sé eiganda hans gerð sekt upp á 18 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert