Alls kyns ósannindi sögð um húsið

Hreiðar Már Hermannsson, forstjóri Eikar, (lengst til hægri) Guðbjartur Magnússon, …
Hreiðar Már Hermannsson, forstjóri Eikar, (lengst til hægri) Guðbjartur Magnússon, framkvæmdastjóri framkvæmda, (í miðjunni) og Finnur Ingi Hermannsson, verkefnastjóra framkvæmda, í Turninum. mbl.is/Árni Sæberg

Forstjóri Eikar fasteignafélags segir ýmis ósannindi hafa verið sögð um Turninn í Kópavogi, sem er í eigu félagsins.

2,5 milljarða viðgerðum á húsinu er í þann mund að ljúka. Kostnaðurinn snýr að umfangsmiklum framkvæmdum vegna endurnýjunar á gleri og fögum, lagfæringum vegna rakaskemmda, endurnýjunar á lyftum, skrautlýsingum, endurnýjunar þaks, vindfanga og fleira.

„Ekkert í líkingu við kjaftaganginn“

Fyrir tveimur árum var greint frá því að rakaskemmdir og mygla hefðu fundist við gluggaskipti og að í kjölfarið hefðu fyrirtæki sagt upp leigusamningi í Turninum.

Turninn í Kópavogi.
Turninn í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Blaðamaður hitti Hreiðar Má Hermannsson, forstjóra Eikar, Guðbjart Magnússon, framkvæmdastjóra framkvæmda, og Finn Inga Hermannsson, verkefnastjóra framkvæmda, í Turninum á dögunum og spurði þá út í framkvæmdirnar sem hafa staðið yfir undanfarin ár. Heimsóknin byrjaði á skoðunarferð um húsið, allt frá 20. og efstu hæð niður í stóran bílakjallarann, sem þeir sögðu vel geymt leyndarmál. Ferðinni lauk í skrifstofuhúsnæði Eikar á 18. hæð með góðu útsýni yfir Kópavoginn.

„Alls kyns ósannindi hafa verið sögð um húsið, sem við svo sem mætum ekkert heldur ætlum að sýna í verki hvernig við skilum af okkur,” sagði Hreiðar Már á skrifstofunni að lokinni skoðunarferðinni.

„Við erum með alvöru hús hérna. Við erum búin að taka mjög alvarlega það sem við höfum fundið hérna, sem er ekkert í líkingu við kjaftaganginn sem maður hefur heyrt. Okkar metnaður er sá að vera með besta skrifstofuhúsnæði á Íslandi og skrifstofuhúsnæði á heimsmælikvarða á Smáratorgi,” bætti hann við.

Ekkert loftræstikerfi til staðar

Beðinn um að nefna dæmi um ósannindin nefndi hann að talað hefði verið um að mygla hefði verið úti um allt húsið sem hafi dreifst í gegnum loftræstikerfið.

„Loftræstikerfið er bara ekki til staðar í húsinu. Alls kyns bull og vitleysa sem maður hefur heyrt hefur lent á milli tannanna á fólki en við pælum ekkert í því. Við viljum eiga fasteignir í hæsta gæðaflokki og við erum að standa okkur í því, heldur betur,” svaraði Hreiðar Már.

Spurður út í fjölda þeirra sem yfirgáfu Turninn vegna raka og myglu sagði hann jafnframt aðeins einn leigutaka hafa gert það. Þar fyrir utan hefði Deloitte farið þegar leigusamningur fyrirtækisins rann út.

Mikið púsluspil

Hreiðar Már, sem tók við sem forstjóri Eikar fyrr á þessu ári, kvaðst vera hæstánægður með stöðu mála í Turninum í dag enda yrði félagið innan sex mánaða komið með hús í fullum rekstri og á fullum afköstum. Lyfturnar yrðu þá farnar af húsinu og nýr veitingarekstur á annarri hæð hússins undir merkjum Brasa tæki vel á móti gestum og viðskiptavinum Eikar.

Hann viðurkenndi þó að það hefði verið mikið púsluspil að færa fyrirtæki til í húsinu vegna framkvæmdanna.

„Sem betur fer erum við með risa eignasafn. Viðskiptavinir okkar rúmast vel innan safnsins og við höfum fjárhagslegt bolmagn til að koma til móts við fólk og vilja til þess að gera það. Það er það sem við gerðum og tókum áskoruninni alvarlega. Við erum með úrvalsfólk hérna til að takast á við svona verkefni,” sagði forstjórinn.

Líkir flutningum við Tetris

Spurður út í helstu áskoranir varðandi framkvæmdirnar umsvifamiklu í Turninum sagði Guðbjartur Magnússon vandamálið ekki hafa snúist um endurbæturnar sjálfar á húsinu heldur um umfang verksins og stærð hússins. Velferð viðskiptavinanna hefði ávallt verið efst í huga þeirra og lögð var áhersla á að þeir yrðu fyrir sem minnstu raski. Verkefnið hefði aldrei heppnast nema með góðu samstarfi við þá og sagðist hann vilja sérstaklega þakka fyrir þeirra framlag í framkvæmdunum.

Tölvuteiknuð mynd af Brasa.
Tölvuteiknuð mynd af Brasa. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er risastórt húsnæði sem er verið að vinna í og allt fólkið er í húsinu á meðan. Þetta er svolítið eins og að þvo fötin sín á meðan maður er í þeim eða að gera við flugvél á meðan hún er á lofti, þetta er krefjandi  bara vesen. Það er hægt að gera allt það en það tekur tíma og krefst skipulags,” greindi Guðbjartur frá og líkti flutningum leigutaka, ásamt húsgögnum og lausamunum á milli hæða við tölvuleikinn Tetris. 

Hann bætti við að hver einasta hæð hefði verið hreinsuð rækilega, meira að segja hefðu lyftustokkarnir verið nánast hreinsaðir með tannbursta.

Turninn.
Turninn. Ljósmynd/Aðsend

Eins og sunnudagaskólinn

Muntu ekki anda rólegar, núna þegar sér fyrir endann á þessu?

„Jú, við erum bara reynslunni ríkari. Það mun koma upp einhvers staðar rakamál aftur, eins og gerist bara, og það verður svolítið eins að fara í sunnudagaskólann eftir þetta verkefni,” svaraði hann og uppskar hlátur á skrifstofunni.

„Við tókum þessu mjög alvarlega og ástand hússins er í samræmi við það,” skaut Hreiðar Már inn í og sagðist aðspurður aldrei hafa haft áhyggjur af kostnaðinum við framkvæmdirnar. Allt hefði verið innan marka og ríkur vilji fyrir hendi til að hafa húsið í toppstandi. Benti hann í því samhengi á 170 milljarða eignasafn Eikar þar sem rétt rúmlega helmingurinn væri skuld. Þrátt fyrir að vera risastór væri Turninn aðeins um 6 til 7% af heildareignum félagsins. „Þetta er ekki meira en það,” sagði forstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert