Augunum lokað fyrir hinu augljósa

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og …
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, ráðherra. samsett mynd

Þann 6. september 1995 birti Alþýðublaðið leiðara eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur undir fyrirsögninni „Afstæðiskenning forseta Íslands“. Hún var í hópi fjölmargra málsmetandi Íslendinga sem reyttu hár sitt, og skegg í einhverjum tilvikum, yfir framgöngu Vigdísar Finnbogadóttur, þáverandi forseta Íslands, á meintri jafnréttisráðstefnu í Kína. Klaufaleg ummæli forsetans, þar sem hún lýsti samtali sínu við hinn harðsnúna Li Peng, kollega hennar í Alþýðulýðveldinu, sem meðal annars hafði tekið þátt í því að siga skriðdrekum á og yfir námsmenn á Torgi hins himneska friðar árið 1989, fóru ekki þversum heldur öfugt ofan í fólk.

Var haft eftir forsetanum, sem þá hafði setið á valdastóli í 15 ár, að samskiptin við Li hefðu verið sérlega ánægjuleg „og þau hefðu talað vel saman og velt fyrir sér heimspekilegum spurningum, eins og til dæmis hversu frelsið væri afstætt.“

Leiðari Kolbrúnar Bergþórsdóttur úr Alþýðublaðinu 6. september 1995.
Leiðari Kolbrúnar Bergþórsdóttur úr Alþýðublaðinu 6. september 1995. Skjáskot

Höllin og Spursmál

Nú í haust eru 30 ár liðin frá ráðstefnunni umdeildu. Og nú er komið að sjöunda forseta lýðveldisins að sækja hana. Það kemur í hlut Höllu Tómasdóttur en með henni í för verður hinn knái dómsmálaráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem virðist treysta sér í keisarans höllu í Kína þótt ekki þori hún að mæta í Spursmál – en það er önnur saga.

Og enn á að tala um jafnrétti og mannréttindi. Telja þær stöllur að það sé afstætt? Varla. Þær hljóta einfaldlega að taka undir með stofnendum Bandaríkjanna sem sögðu það sjálfsagðan sannleik að allir menn væru fæddir jafnir.

En vandinn er sá að kollegi Höllu, sá sem fer með valdaforráð í Kína, er ekki á sama máli. Um það má meðal annars fræðast í stórfróðlegri bók fræðimannsins Michaels Dillon, We need to talk about Xi, sem til umfjöllunar er í Bókaklúbbi Spursmála þennan mánuðinn.

Leiðtogi Xi Jinping á mikilli sýningu í september síðastliðnum þegar …
Leiðtogi Xi Jinping á mikilli sýningu í september síðastliðnum þegar loka síðari heimsstyrjaldarinnar var minnst. AFP/ Greg Baker

Hvernig hafast þær að?

Hvernig ætla hinir mjúkmálu leiðtogar Íslands að umgangast hið mikla vald þegar komið er til Beijing? Verður foringja Xi sagt til syndanna eða hann hvattur til að gera bragarbót á mannréttindamálum í Kína? Eða verður rykið dustað af afstæðiskenningunni til þess að halda öllum góðum?

Hér á landi hefur talsverð umræða átt sér stað um tjáningarfrelsið sem er talið grundvallandi fyrir annað frelsi fólks í lýðræðisþjóðfélögum. Hefur talsvert verið saxað á það víða á undanförnum misserum en óvíða með eins afgerandi hætti og í Kína.

Tilraunir í þá veru hafa raunar staðið allan valdaferil Xi sem varð æðsti leiðtogi ríkisins árið 2012. Voru birtingarmyndir þess áhugaverðar og jafnvel nokkuð skondnar strax árið 2013 þegar myndir tóku að dreifast um netheima sem drógu samjöfnuð milli fréttamyndar af Xi og Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna, og teikningar af Bangsímon og Tígra þar sem þeir ganga hlið við hlið með bros á vör.

Feluleikurinn þar sem Bangsímon er í aðalhlutverki.
Feluleikurinn þar sem Bangsímon er í aðalhlutverki. Bókarkápa

Disneymynd bönnuð

Kínversk stjórnvöld lögðu hart að sér við að hefta dreifingu þessara mynda innan Kína og kvað svo rammt að þessari ritskoðun að Bangsímon sjálfur var bannaður á helstu efnisveitum innan Kína, meðal annars Weibo og WeChat. Þá var Disney-myndin Christopher Robin, sem kom á markað árið 2018, bönnuð í Kína.

Hefur bangsinn ljúfi, káti því orðið táknmynd fyrir ritskoðun og mannréttindaóþol Xi Jinping.

Einhverjir kunna að láta sem þetta sé ekki stórmál í heildarsamhengi hlutanna. En taka verður tillit til þess að hér er aðeins um birtingarmynd mun stærri harðstjórnar að ræða.

Hvað með Úígúrana í norðvesturhluta Kína sem milljónum saman er haldið í einhverskonar fangabúðum sem stjórnvöld í Kína vilja reyndar meina að séu aðeins „endurmenntunarbúðir“. Upplýsingar sem lekið hefur verið út af svæðinu á síðustu árum staðfesta að þarna er ekki um slíkt að ræða heldur gríðarlega umfangsmikil mannréttindabrot sem heimurinn hefur að því er virðist ákveðið að beina blinda auganu að. Hann virðist jafnvel blindur á báðum, eða hið minnsta halda fyrir bæði augun, vel og tryggilega líkt og Bangsímon í bókinni Feluleikurinn.

Bók Michael Dillon hefur ritað aðgengilegt rit um Xi Jinping. …
Bók Michael Dillon hefur ritað aðgengilegt rit um Xi Jinping. Bókin er til umfjöllunar í Bókaklúbbi Spursmála nú í október. Bókarkápa

Munu þær tala?

Stóra spurningin nú er hvort Halla Tómasdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir hafi manndóm í sér til að tala máli þessa yfirgefna fólks.

Því miður eru litlar líkur á því. Það er þó vonandi að þær lesi bók Michaels Dillon áður en þær fljúga á fund Xi. Þær fá, eins og aðrir áhugasamir bókina á 2.959 krónur í bókabúðum Pennans og einnig vefverslun hans.

Hér er hægt að skrá sig í Bókaklúbb Spursmála.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert