Töluverðar breytingar urðu á stjórn UMFÍ í gær þegar sjö ný komu inn í ellefu stjórnarsæti.
Tvö sem áður sátu í stjórn UMFÍ voru kosin í varastjórn. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var sjálfkjörinn en hann gaf einn kost á sér, að því er segir í tilkynningu.
Athygli vakti þegar atkvæði vegna stjórnarkjörsins voru ljós að þau Margrét Sif Hafsteinsdóttir og Birgir Már Bragason voru jöfn. Formaður kjörnefndar lét þau því draga spil til að skera úr um kjörið. Margrét dró ás, sem tryggði henni sæti í stjórn UMFÍ. Birgir gaf því kost á sér í varastjórn og hlaut kosningu í hana.
Ný stjórn UMFÍ er eftirfarandi (í stafrófsröð, að undanskildum formanni):
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ
Guðný Stefanía Stefánsdóttir, sem kemur frá Héraðssambandi Vestfjarða, og er hún ný í stjórninni.
Halla Margrét Jónsdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ og kemur af sambandssvæði Íþróttabandalags Akraness, kemur sömuleiðis ný inn í stjórn UMFÍ.
Helgi Sigurður Haraldsson frá Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK) er nýr inn.
Margrét Sif Hafsteinsdóttir, sem kemur frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, kemur ný inn.
Skúli Bragi Geirdal, sem kemur frá Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA), kemur nýr inn í stjórnina.
Sigurður Óskar Jónsson hlaut kosningu á ný en hann kemur frá Ungmennasambandinu Úlfljóti (USÚ).
Í varastjórn eru:
Birgir Már Bragason, kemur nýr inn í stjórnina. Hann sat þingið í nafni Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍRB).
Gunnar Þór Gestsson, sem sat í stjórn og var varaformaður fyrri stjórnar. Gunnar Þór er jafnframt formaður Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS).
Ragnheiður Högnadóttir, sem sat áður í stjórninni. Hún var þingfulltrúi Ungmennasambands Vestur-Skaftafellssýslu.
Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, sem kemur nýr inn. Hann kemur jafnframt frá USVS.