Lottópottur næsta laugardags verður einn sá stærsti í sögunni. Hann verður sjöfaldur og stefnir í 160 milljónir króna.
Potturinn hefur aðeins einu sinni verið áttfaldur.
Þetta segir Pétur Hrafn Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Íslenskrar Getspár, í samtali við mbl.is.
Enginn var með allar tölur réttar í Lottóútdrætti gærdagsins, þar sem potturinn var sexfaldur og nam 122 milljónum.
„Þetta er með þeim stærri í sögunni. Hann hefur einu sinni verið áttfaldur og nokkrum sinnum verið sjöfaldur,“ segir Pétur Hrafn sem telur líklegra en ekki að einhver hreppi fyrsta vinning næstkomandi laugardag, enda eru jafnan fleiri miðar keyptir eftir því sem potturinn verður stærri.
