Jónas Tryggvason er iðinn við að leika golf þegar tími gefst til eins og margir aðrir Íslendingar. Hefur hann fengið tækifæri til að ferðast um heiminn í tengslum við vinnu og reynir að leika golf þegar hann er á ferðinni. Hefur hann nú leikið golf í meira en 50 löndum.
„Sumir safna frímerkjum, aðrir safna þjóðbúningadúkkum og enn aðrir safna löndum þar sem þeir hafa spilað golf. Þetta er einhvers konar söfnunarárátta,“ segir Jónas léttur þegar Morgunblaðið spyr hann út í áhugamálið.
Land númer 50 hjá Jónasi kom þegar hann lék golf í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og á síðasta ári bættist við land númer 52 þegar hann lék golfhring í Hvíta-Rússlandi. Jónas er búsettur í útjaðri Moskvu í Rússlandi og býr við hliðina á golfvelli. Hann segir golfiðkunina hjá sér hafa sveiflast í gegnum tíðina. Vinnan eigi það til að trufla. „Fyrir tæpum tíu árum spilaði ég mjög mikið og spilaði mig inn í öldungalandsliðið. Var þá kominn niður í 8 í forgjöf og var alveg þokkalegur. Í dag er forgjöfin í kringum 15 og hringirnir eru ekki nema 15 til 20 á ári.“
Jónas bendir á áfangastaði sem ekki sé víst að Íslendingar tengi við góða golfvelli. „Balí er geggjaður staður til að spila golf því þar eru rosalega flottir golfvellir. Í Víetnam eru virkilega flott svæði við ströndina. Þar eru magnaðir vellir. Tyrkland var að bætast við sem áfangastaður fyrir Íslendinga með beinu flugi. Það er góður kostur og þar er golfið frekar aðgengilegt.“
Fyrir utan Ísland lék Jónas fyrst golf á erlendri grundu árið 1993 þegar hann bjó í Bandaríkjunum og Kanada fylgdi í kjölfarið. Næst spilaði hann ekki golfhring erlendis fyrr en árið 2003 en þá tókst honum að bæta við landi á hverju ári til ársins 2017. Ekkert land bættist við 2018-2020 en frá 2021 hefur bæst drjúgt í sarpinn.
„Þegar ég starfaði hjá Actavis bættust við mörg lönd í austurhluta Evrópu. Ég varð síðar ráðgjafi í lyfjageiranum í fimm ár. Vann þá fyrir ýmis fyrirtæki í Evrópu og Bandaríkjunum en þá bættist við hellingur af löndum eins og Indónesía, Pakistan, Suður-Afríka, Kína, Nepal og fleira,“ segir Jónas, sem hefur spilað golf á ótrúlegustu stöðum ef þannig má taka til orða. Til dæmis á Seychelles-eyjum austan við Afríku og Maldíveyjum. Jónas hefur leikið golf í löndum þar sem er einungis einn golfvöllur og nefnir sem dæmi Armeníu og Kirgistan.
„Í vinnuferðum hef ég stundum getað bætt við degi til að komast í golf. Stundum er ég með golfsettið á ferðalögum en í einhverjum tilfellum hef ég leigt golfsett. Undanfarið hafa Arabalöndin verið að bætast við hjá mér. Ég mun halda áfram meðan ég get en á óskalistanum eru lönd eins og Egyptaland, Sádi-Arabía, Íran, Kórea og Marokkó en það getur auðvitað breyst og margt sem getur haft áhrif.“
Jónas var kunnur fimleikamaður á yngri árum og lýsti fimleikakeppni Ólympíuleikanna með tilþrifum í ríkissjónvarpinu. „Í fimleikunum er mikið lagt upp úr styrk og við gátum lyft tvöfaldri eigin þyngd í bekkpressu. Í golfinu virtust bara vera karlar með pottlok á höfðinu að berja einhverja kúlu. Ég hafði engan áhuga á þessu,“ segir Jónas en það breyttist þegar hann starfaði á RÚV seint á níunda áratugnum.
„Ég vann þar með skemmtilegu fólki eins og Bjarna Fel og fleirum. Þá var árlegt golfmót á dagskrá og RÚV þurfti að senda sex keppendur ásamt fleiri fyrirtækjum. Íþróttadeildin varð að senda fulltrúa og gat ekki verið minni en aðrar deildir í stofnuninni. Mér var fórnað í þetta en ég hafði aldrei haldið á kylfu áður. Friðþjófur Helgason [ljósmyndari og tökumaður] tók mig í smá kennslu á staðnum en hann er mjög góður golfari. Ég spilaði þennan fyrsta hring á 144 höggum en fékk bakteríuna enda áttaði ég mig á því hversu mikil áskorun þetta er.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
