Hiti fór yfir 21 stig á Austfjörðum í dag

Hæð yfir Bretlandseyjum dælir til okkar hlýju og röku lofti …
Hæð yfir Bretlandseyjum dælir til okkar hlýju og röku lofti úr suðri og Austfirðingar njóta góðs af. Ljósmynd/Torfi Bergsson

Milt hefur verið í veðri víða á Norður- og Norðausturlandi í dag. Á Bakkagerði á Borgarfirði eystra mældist hiti hæstur í hádeginu í dag 21,2 stig, við Sauðanesvita vestan Siglufjarðar mældist hiti 21 stig klukkan tvö í nótt og á Seyðisfirði mældist hiti 20,8 stig í hádeginu í dag.

Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands, segir ekki endilega um háar hitatölur að ræða á þessum árstíma þó hann játi að dagurinn sé hlýr.

Gerist við og við

„Þetta er ekki árlegur viðburður eða svoleiðis en gerist samt svona við og við.“

Hvaða veðurfyrirbrigði veldur þessum háa hita?

„Það er hæð yfir Bretlandseyjum sem dælir til okkar hlýju og röku lofti úr suðri. Rakanum rignir út hér á sunnanverðu landinu og loftið kemur svo þurrt niður af fjöllunum hinum megin,“ segir Eiríkur og lýsir hnjúkaþeysáhrifum þegar loft kemur niður að fjallsrótum hlémegin sé það hlýrra en það var vindmegin fjalls.

„Loft sem er þetta tíu eða kannski tólf-þrettán gráður þegar það lendir fer upp á fjöllin og kemur niður hinum megin sem kannski 18, 19, 20 gráður.“

Eiríkur segir skilyrði þess að slíkar aðstæður skapist vera að einhver smá vindur sé til staðar.

„Ef það hægir á þessu streymi hefur sólin ekki bolmagn til að halda þessu við.“

Athyglisvert er að áhrifanna gætir ekki alls staðar á Austurlandi eða Austfjörðum ef því er að skipta. Til að mynda var hæsti hiti á Eskifirði í dag aðeins átta stig að sögn Eiríks.

Þannig að þessu er líka mjög misskipt innan Austfjarðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka