Thelma mætti fersk úr sundi á kaffihús Systrasamlagsins einn morgun í vikunni til fundar við blaðamann. Það er bjart yfir henni og á höfðinu er hún með bleika húfu sem á stendur Kraftaverk. Það á vel við, því Thelma segist vera gangandi kraftaverk en veit að vágesturinn liggur í leyni og gæti bankað upp á hvenær sem er.
Thelma greindist fyrir rúmu ári með fjórða stigs ólæknandi krabbamein en með hjálp lyfja og heilbrigðu líferni greinist krabbinn ekki lengur í líkama hennar. Hún á góða daga og slæma daga en kýs að lifa lífinu lifandi, jákvæð og glöð.
Thelma hóf sinn feril í fatahönnun og eftir grunnnám sérhæfði hún sig í útsaumi og bróderíi hjá tískuhúsinu Chanel í París. Síðar fór hún í jógakennaranám sem opnaði alveg nýjan heim fyrir henni. Thelma sérhæfði sig í barnajóga og hugleiðslu og í dag kennir hún börnum í Hjallastefnunni bæði jóga og textíl og nær því að sameina nær allt sem hún hefur lært. Auk þess er Thelma með diplómapróf í jákvæðri sálfræði og er nú í miðju námi í jógaþerapíu. Heima á hún fjóra menn; eiginmann og þrjá drengi.
Meðfram kennslunni vinnur Thelma enn að sinni hönnun, en hún hefur sérhæft sig í höttum og spöngum. Þegar auglýst var eftir hönnuðum til að hanna Bleiku slaufuna 2025 ákvað hún að slá til og var valin í ár, sér til mikillar gleði.
„Ég hef alltaf verið að vinna með rósettur, sem er í raun grunnurinn að rósettunni í Bleiku slaufunni minni,“ segir Thelma, en hún sækir innblástur til ömmu sinnar sem var mikil hannyrðakona.
„Móðuramma mín, Brynhildur Friðriksdóttir, var mér mikil fyrirmynd og var fyrsta kraftaverkið í minni fjölskyldu. Hún lenti í slysi fimmtán ára, missir annað lungað og fær gat á hálsinn. Hún er flutt á sjúkrabörum til Kaupmannahafnar til lækninga og þar er hún í nokkur ár og lærir þá handavinnu. Hún átti aldrei að geta eignast börn en hún átti tvö eftir að hún flutti heim. Hún var gríðarleg handavinnukona og ég ólst upp við rókókóstóla og bróderí uppi um alla veggi. Hún verðlaunaði mig með handavinnu, en þegar ég var búin að lesa og gera skrautskrift, fórum við að gera handavinnu. Hún kenndi mér að hekla og prjóna og ég fann fljótt að styrkurinn minn væri í höndunum. Ég elskaði allt í kringum þetta,“ segir hún.
„Amma dó stuttu eftir að ég greindist og það var áfall ofan á áfall. Ég erfði allt saumadótið hennar. Þegar ég var valin til að hanna slaufuna fór ég á vinnustofuna og opnaði allar kistur, þar á meðal eina kistu frá ömmu. Þar lá efst skúffunni hálfgerð útgáfa af þessari slaufu. Ég tók þessu sem skilaboðum til mín og fléttaði þetta saman við rósettuna mína og úr varð þessi Bleika slaufa. Þannig að við eigum þessa slaufu saman, ég og amma.“
Í ársbyrjun 2024 greindist Thelma, rétt rúmlega fertug, með krabbamein og lífið snerist á hvolf.
„Fyrsta brjóstamyndatakan hjá konum er um fertugt og ég fór þá og ekkert sást. Í desember 2023 fann ég stóra kúlu í brjóstinu og sama dag var ég einmitt hjá lækni vegna fæðingarbletta. Ég sagði honum í leiðinni frá kúlunni og hann sagði mér að hringja á heilsugæslu, fá skoðun og þeir myndu svo bóka mig í myndatöku. Ég geri það strax og fæ tíma en fæ því miður þau svör að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur; ég væri það ung og að þetta væri líklega stíflaður fitukirtill. Ég var send heim en var sagt að hafa samband eftir jól ef ég væri enn að pæla í þessu,“ segir Thelma og segist hafa verið sagt að kúlan tengdist jafnvel breytingaskeiði.
Spurð um stærðina, svarar Thelma að kúlan hafi verið á stærð við skopparabolta. Jólin liðu, janúar og febrúar og enn var Thelma óróleg því kúlan var enn til staðar. Hún fékk svo loks tíma hjá Brjóstamiðstöðinni í kringum mánaðamótin febrúar/mars.
„Um leið og myndin var tekin sást þetta. Ég var strax sett í ómskoðun og mér var sagt að þetta væri ekki stíflaður mjólkurkirtill. Mér var sagt að líklega þyrfti að taka af mér brjóstið. Maður fær fréttirnar í hollum. Mér var svo sagt að þetta væri illkynja krabbamein í brjósti og komið í eitil. Svo var ég sett í jáeindaskanna og þá sáust blettir í beinum,“ segir hún.
Vegna þess að meinið hafði dreift sér, var Thelma aldrei sett í aðgerð.
„Þetta var gríðarlegt áfall. Yngsta barnið okkar, Jón Árni, er með Downs-heilkenni, sem var okkur aldrei neitt áfall. Þetta var fyrsta áfallið mitt. Þetta var svo mikið áfall að líkaminn dofnaði og ég titraði og skalf og var með illt í maganum. Kvíðinn var svo mikill og líkaminn ræður ekki við þessar upplýsingar,“ segir hún.
„Mér var sagt að meinin væru ekki skurðtæk og ekki hægt að lækna þetta,“ segir Thelma, en hún var strax sett á líftæknilyf sem eiga að bæla niður krabbann og halda honum í skefjum. Það hefur tekist vonum framar.
„Æxlið í brjóstinu finnst ekki og sést ekki. Mér líður mjög vel í dag. Þremur mánuðum eftir að ég byrjaði á lyfjunum sást eiginlega ekkert í jáeindaskannanum og sex mánuðum eftir greiningu sást ekkert. Engir blettir í beinum og ekkert í brjóstinu.“
Er það óvenjulegt?
„Þetta er bara kraftaverk. En ég heiðra lækninn minn sem heldur mér á jörðinni og minnir mig á að þetta er í dvala. Ég á helling í mínum bata og passa upp á hugarfarið og heilsuna. Talandi um áfallið, mín mesta heilun var þegar ég þorði að taka ábyrgð á þessu verkefni. En það hafa verið alls konar dalir, upp og niður.“
Thelma hefur hlustað á líkamann og tekið það rólega síðan hún greindist. Vinir og vandamenn hafa gripið fjölskylduna og sýnt í verki stuðning, kærleik og hlýju. Thelma og fjölskylda hennar hefur sótt styrk bæði til Krabbameinsfélagsins og Ljóssins og segir hún ómetanlegt starf sem þar sé unnið.
„Við höfum fengið gríðarlegan styrk frá þessum félögum og þegar ég sá auglýst eftir hönnuði Bleiku slaufunnar langaði mig að gefa til baka.“
Eftir áfall eins og Thelma varð fyrir, breytist lífið og hugsunarhátturinn. Thelma segist „hanna“ hvern einasta dag og hefur nóg fyrir stafni, en ef hún finnur fyrir þreytu eða orkuleysi, hlustar hún á líkamann og „hannar“ daginn upp á nýtt.
„Stundum verð ég að vera ein, fara í sund eða leggja mig. Ég hef sem betur fer aðgang að sumarbústað frænda míns og fer gjarnan þangað ein. Auðvitað koma dagar þar sem er grátur og maður veltur fyrir sér spurningum eins og „af hverju ég“. Maður stendur andspænis þessu og það er alltaf kvíði að hitta krabbameinslækninn sem ég fer til á fjögurra mánaða fresti. Þá blossar alltaf upp óttinn að krabbameinið sé komið aftur. Ég er ekki í afneitun og ég geri mér fulla grein fyrir að lífið er breytt, en þarna „kikkar“ inn valið. Ég veit af þessu, en hvernig ætla ég að gera mér lífið auðveldara? Ég veit að mér finnst gott að fara í sund, borða góðan mat og vera með fjölskyldunni og geri það en þarf að passa mig að vera ekki að lifa á milli skanna og viðtala. Þetta verkefni er ekki að klárast á einhverri dagsetningu og því þarf ég að finna taktinn minn. Stundum er það rosalega erfitt en stundum gleymi ég þessu,“ segir hún.
„Ég reyni að hlusta á mitt innsæi og finnst gaman að tengjast öðrum konum í sömu sporum. Ég hef líka fundið konur á mínum aldri erlendis með krabbamein eins og mitt sem deila með mér sinni reynslu á samfélagsmiðlum og það er styrkur í því,“ segir hún.
„Maður þarf að fara inn á við og finna sína leið. Þetta snýst um að halda hausnum í lagi. Það er hægt að lifa með þessa greiningu,“ segir hún.
„Lífið sjálft er algjör óvissuferð. Og af hverju ekki að velja gleðina og þakklætið og hafa svolítið gaman?“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
