Lögreglan var kölluð til vegna vinnuslyss í bakaríi í dag, en þar reyndust áverkar minni háttar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Alls voru 54 mál skráð í kerfi lögreglunnar frá því klukkan 5 í morgun til 17 í dag.
Tveir menn voru handteknir grunaðir innbrot í bíla og reyndist annar þeirra vera með ætluð fíkniefni í fórum sínum. Voru þeir fluttir á lögreglustöð vegna málsins og var annar vistaður í fangaklefa.
Lögregla þurfti að hafa afskipti af manni sem var með ógnandi hegðun í miðborginni en hægt var að leysa það mál með samtali, að því er kemur fram í dagbókinni.
Þá var tilkynnt um umferðarslys þar sem ökumaður hafði látið sig hverfa úr bíl sínum sem var óökufær. Leiddi rannsókn lögreglu til þess að kona var handtekin grunuð um að hafa valdið slysinu og akstur undir áhrifum áfengis. Var konan vistuð í fangaklefa vegna málsins.
