Margrét gefur ekki kost á sér í vor

Margrét Sanders hefur verið oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í seinustu …
Margrét Sanders hefur verið oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í seinustu tveimur kosningum. mbl.is/Þ​órður Arn­ar Þórðar­son

Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér sem oddviti flokksins í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 16. maí næstkomandi. 

Þetta tilkynnir hún í færslu á Facebook-síðu sinni nú rétt í þessu. 

Margrét hefur verið oddviti Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2018 en flokkurinn hefur á þeim tíma setið í minnihluta í bæjarstjórninni en meirihlutann skipa Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Bein leið. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut þó flest atkvæði allra flokka bæði 2018 og 2022. 

Þingmaður orðaður við framboð

Margrét þakkar í færslunni fyrir það traust sem henni hefur verið veitt en í prófkjöri flokksins fyrir kosningarnar árið 2022 naut hún stuðnings yfir 80 prósent flokksmanna. 

Hún segir spennandi tíma vera fram undan í Reykjanesbæ og hefur hún fulla trú á því að flokkurinn komist aftur í meirihluta að loknum kosningum.

Næstu misserin hyggst Margrét einbeita sér að ráðgjafafyrirtækinu sínu, Strategíu, og þeim stjórnum sem hún situr í. Hún ætlar þó að starfa sem oddviti fram að kosningum og hyggst styðja heilshugar við arftaka sinn í oddvitastólnum. 

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið orðaður við framboð í Reykjanesbæ, þar sem hann er nú búsettur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert