MH-ingar um Laxness: „Þetta er ekki fyrir alla“

Stella Rut Friðriksdóttir og Bryndís Þórunn Guðnadóttir í Norðurkjallara MH.
Stella Rut Friðriksdóttir og Bryndís Þórunn Guðnadóttir í Norðurkjallara MH. mbl.is/Elínborg

Menntaskólanemi sem hefur lesið Sjálfstætt fólk, Kristnihald undir jökli og Barn náttúrunnar eftir Halldór Laxness efast um að fyrstnefnda bókin sé endilega það verk skáldsins sem best er til þess fallið að kenna í framhaldsskólum.

Morgunblaðið greindi í vikunni frá því að innan við þriðjungur framhaldskólanema læsi bók eftir Laxness sem hluta af skyldunámi sínu og Sjálfstætt fólk væri aðeins lesin í fjórum skólum af 29.

Menntaskólinn við Hamrahlíð er einn þessara skóla en Bryndís Þóra Guðnadóttir og Stella Rut Friðriksdóttir eru þar nemendur á þriðja ári. Um þessar mundir lesa þær ljóð og smásögur í íslenskutímum en á síðustu önn lásu þær Sjálfstætt fólk.

Þá hefur Bryndís einnig lesið Barn náttúrunnar, fyrstu bók Laxness sem hann skrifaði 16 ára gamall, í íslenskuáfanga en fyrr á þessu ári las hún Kristnihald undir jökli í frítíma sínum.

Hafði viljað lesa bókin á eigin forsendum

Spurðar hvernig þeim hafi þótt Sjálfstætt fólk segir Stella: „Mér fannst hún mjög falleg en mér fannst hún mjög langdregin fyrir að láta krakka í skóla vera að lesa. Ég hefði frekar viljað lesa hana á mínum eigin forsendum.“

Bryndís tekur undir þetta en spurð hvernig henni hafi þótt hinar bækurnar sem hún hafi lesið eftir Laxness segir hún:

„Ég las Barn náttúrunnar fyrir skólann líka og mér fannst hún mjög góð, miklu betri heldur en Sjálfstætt fólk og Kristnihald undir Jökli, ég las hana bara sjálf þannig að mér finnst hún mjög skemmtileg.“

Halldór Kiljan Laxness á blaðamannafundi árið 1976.
Halldór Kiljan Laxness á blaðamannafundi árið 1976. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Þetta er svo mikilvægur partur af menningunni

Finnst ykkur mikilvægt að þið lesið skáldsögur eftir Halldór Laxness í skólanum?

„Nei, mér finnst það ekki skipta rosalega miklu máli nema kannski þú sért að stefna á bókmenntir í háskóla eða hafir áhuga á þessu, en þetta er ekki fyrir alla,“ segir Stella.

Bryndís tekur þó í annan streng. „Mér finnst það alveg skipta smá máli því þetta er svo mikilvægur partur af menningunni okkar. Mér finnst alveg mikilvægt að fólk þekki menninguna,“ segir hún og bætir við:

„Það þarf ekkert endilega að lesa, þú veist, lengsta verkið eftir hann. Hann skrifaði smásögur.“

Núna er fólk bara á Tiktok

Þá segja þær aðspurðar að þær hafi áhyggjur af því að ungt fólk lesi ekki nóg.

„Sérstaklega því að núna er fólk bara á Tiktok og eitthvað. Það er ekki jafn mikið að lesa íslenskar bækur.“

Spurðar hvað sé til bragðs að taka eru þær sammála um að börn þurfi að lesa meira og að lykillinn að því sé að þau fái að lesa bækur sem þeim finnst í raun og veru áhugaverðar og vilja lesa.

„Krakkar eru með svo mikinn mótþróa. Ef þú segir þeim, lestu þessa bók, þá eru þeir ekki að fara að vilja lesa þessa bók. En ef þeir vilja gera það sjálfir þá finnst þeim það skemmtilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert