Það ríkti eftirvænting hjá blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins auk Guðna Ágústssonar á leiðinni austur í Hveragerði til fundar við Eyvind Erlendsson leikstjóra, en allir eiga það sameiginlegt að hafa numið af Eyvindi á sínum yngri árum.
Hann kenndi Guðna að koma fram á sviði og beita röddinni svo eftir væri tekið, ljósmyndarinn var í sveit hjá Eyvindi og Sjöfn í Heiðarbæ þegar hann var um fermingu og blaðamaður hafði notið leiðsagnar hans við smíði Breiðholtskirkju í byrjun níunda áratugarins.
„Ja nú lýgurðu!,“ segir Eyvindur þegar blaðamaður kynnti sig fyrir honum, en við hittumst síðast á Kumbaravogi fyrir 15 árum þegar við fórum fyrir hvatningu Ketils heitins Larsens að kveðja Eyvind sem þá var ekki hugað líf, eftir að hafa fengið slag. Sú heimsókn var eftirminnileg því Eyvindur hresstist þegar hann sá okkur, reis úr rekkju og sló upp partíi með söng, við undirleik Jóns Möllers píanóleikara.
Handtakið er þétt, nærveran góð og ró yfir öldungnum þegar hann hlustaði til að meðtaka spurningar, gaf sér tíma og svaraði svo lágum rómi. Það leynir sér ekki þegar setið er andspænis Eyvindi að hann hefur verið glæsimenni og fjölhæfur var hann engu að síður. Smiður, rithöfundur, bóndi, listmálari, leikari, leikstjóri, kvikmyndagerðarmaður og sögumaður sem enginn gleymir sem á hefur hlýtt.
Við byrjuðum að tala um námsárin hans í Moskvu við Sovremenny Theatre, sem á íslensku myndi kallast Nútímaleikhúsið. Þar var Eyvindur í sex ár, kom heim á sumrin til fjölskyldu sinnar og vann þá aðallega í smíðavinnu.
Hann rifjar upp sýningu sem hann setti upp árið 1968 eftir Edward Albee, sem hét Söngurinn um sorgarkrána „Ballad of the Sad Café“, saga um ást, sem sameinar og sundrar. Verkið var sýnt tvisvar í viku í 18 ár eftir því sem Eyvindur telur.
„Það var tröllskessa nokkur sem tók upp á því að opna krá heima hjá sér í þorpinu sem varð svo vinsæl að mannlífið tók annan lit á sig og allir fyrirgáfu öllum allt. Þarna voru hommar, lesbíur og tvítóla fólk. Svo varð þarna ósætti sem endaði með rækilegum slagsmálum og kerlingin sat ein eftir á bak við rifin gluggatjöld og sást skuggamyndinni bregða við í glugganum þegar allt var hrunið,“ rifjar Eyvindur upp.
Hann var spurður um Rússana.
„Þeir eru bara eins og annað fólk, töluvert af þeim eru skynsemismenn og hinir eru vitleysingar. Mér finnst ég muna eftir því þegar Stalín drapst. Ég var í biðröðinni þar sem fólk kom til að hylla hann dauðan. Hann lá á líkbörum þar til sýnis lengi. Það voru allir að troðast til að komast fram fyrir næsta mann og berja líkið augum. Ég slapp úr troðningnum og bjargaði lífi mínu með því að skríða undir röð af herbílum þar sem ég varð hræddur um að lenda undir þvögunni.“
Varstu með tengingu við Rússland áður en þú fórst út?
„Nei, ég hafði enga tengingu þangað og kunni ekkert í rússnesku. Ég setti mig í samband við ágætismann, Arnór Hannibalsson, sem hafði verið þarna og hann gat kennt mér dálítið áður en ég fór út, en ég var alveg mállaus þegar ég kom þangað og gat ekki einu sinni lesið á götuskilti. Fyrstu mánuðina gerði ég ekki annað en að ná tökum á tungumálinu en náði því fljótt og var orðinn fullgildur nemandi þarna um jólin, en þangað kom ég í september.“
Eyvindur lýsir því hvernig umskiptin urðu á vorin í Rússlandi.
„Það urðu ægileg stakkaskipti þegar vorið kom. Á veturna getur orðið allt að 60 gráðu gaddur og svo allt í einu, þegar frostið fór niður, birtist kvenfólkið úti á götu í þunnum kjólum í staðinn fyrir rúllupylsukápurnar sem þær voru í yfir veturinn.“
Þegar Eyvindur kom heim úr námi stofnaði hann Listsmiðjuna sem var atvinnumannaleikhús. Í þessu með honum meðal annarra voru Karl Guðmundsson, Arnar Jónsson og Ketill Larsen og voru settar upp sýningar um allt land.
„Það var alveg bannað að drekka á þessum ferðalögum og þá var mikilvægt að láta hina ekki sjá þegar maður var að fá sér. Við byrjuðum yfirleitt í Reykjavík og fórum svo hringinn. Þetta var oft erfitt, en það var gaman að koma á staði þar sem var ríki, eins og á Sauðárkróki og Akureyri.“
Eyvindur og fjölskylda bjuggu á tímabili austur á Heiðarbæ í Villingaholtshreppi þar sem hann og eiginkona hans, Sjöfn Halldórsdóttir, ráku kúabú en Halldór tengdafaðir hans var þar með fjárbú. Á þeim árum leikstýrði Eyvindur Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson með leikhópum á vegum ungmennafélaganna.
„Mér þótti þetta leikrit bæði leiðinlegt og vitlaust en það náðist samt að gera úr þessu ljómandi skemmtilega sýningu. Stelpurnar voru svo ánægðar með sig í fínu kjólunum og þetta var alveg dásamlegt.“
Eyvindur gerði sjálfur leiktjöldin og segir Guðni að með lýsingu hafi hann beitt göldrum og látið álfakónginn hverfa af sviðinu eftir að Svartur þræll hafði drepið hann, en Guðni var í hlutverki Svarts.
„Ágúst á Brúnastöðum faðir Guðna kom á þrjár sýningar og á tvær sýningar kom hann til þess eins að sjá hvernig mér tókst að láta álfakónginn hverfa, en hann sá það aldrei,“ segir Eyvindur og bætir við að sér hefði nú fundist óþarfi að þingmaðurinn borgaði sig inn á allar sýningarnar til þess eins að sjá í gegnum sjónhverfingarnar.
„En Ágúst vildi borga og aldrei sá hann álfakónginn hverfa því svo mikið var um að vera á sviðinu að það var eins og jörðin gleypti hann eftir að hann var drepinn.“
Eyvindur er spurður hvort leiklistarhefðin og brellurnar sem hann lærði í Rússlandi hafi verið öðruvísi en annars staðar í Evrópu.
„Já, ég reikna með því þar sem helsti kenningasmiður leiklistarinnar í Evrópu á þessari tíð, sem ég var í skóla, var rússneskur maður sem hét Konstantín Stanislavskí og skólarnir reyndu að fara eftir hans forskriftum, hvernig ætti að kenna þetta.“
Þeir sem þekkja Eyvind sögðu blaðamanni að eitt af einkennum hans væri að hann hefði fengið endalaust af hugmyndum og verið óhræddur að hrinda þeim í framkvæmd.
„Ég man eftir einni hugmynd sem ég fékk í uppsetningu á leiksýningu. Það voru tveir karlar úti á túni að dreifa skít og þeir voru bara tveir á sviðinu af mönnum að vera, en hinir léku svo skítahlössin. Þetta voru menn sem voru vel á sig komnir um líkamann og svo kom mokarinn með skófluna og þóttist stinga henni niður rassmegin við hlassið og sá sem lék hlassið steypti sér kollhnís áfram og fletti úr öllu þannig að þetta virkaði eins og hann breiddi úr sér út um allt tún.“
Eyvindur rifjar upp þegar Árni Sæberg var í sveit hjá honum á Heiðarbæ.
„Árni minn vissi nú meira um bíla og vélknúin ökutæki, heldur en skepnur, þegar hann kom til okkar á Heiðarbæ. Ég setti hann einu sinni á hestbak, á rauðan fola öskuviljugan. Hann var alveg saklaus blessaður drengurinn, þekkti ekkert á hesta og kallaði þá grasmótora. Svo þegar hann var kominn á bak, spurði hann mig: „Og hvernig á svo að lát’ann í gang?“ Ég sagði honum að glenna lappirnar út frá síðunum eins langt og hann gæti og lemja svo með báðum hælunum í síðurnar. Hesturinn náttúrulega skaust eins og fjöður um leið og hann fékk höggið og flaug af stað. Strákgreyið sem ekkert kunni og gat ekki varið sig ríghélt sér í faxið og hesturinn rauk niður afleggjarann og út í moldarflag sem ég hafði látið plægja. Þar sá Árni fyrir sér mjúka lendingu og fleygði sér af baki til koma sér burt úr þessu helvíti.“
Yuri Resetov sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi var einu sinni gestkomandi á Heiðarbæ hjá Sjöfn og Eyvindi.
„Sjöfn mín bar fyrir hann brennivín og sagði jafnframt að hún gæti ekki drukkið með honum þar sem hún þyrfti að fara í blómabúðina og ég ekki heldur þar sem ég þyrfti að mæta í leiklistarskólann, en hann þyrfti hvergi að mæta og gæti þess vegna drukkið. Þá sagði Risitov: „Ambassador er alltaf í vinnu, líka þegar hann er fullur,““ segir Eyvindur og hermir eftir Yuri með rússneskum hreim.
Eyvindur segist hafa verið í list frá upphafi. Hann tók þátt í ritgerðasamkeppni Ríkisútvarpsins þegar hann var í kringum fermingu og vann fyrstu verðlaun í sínum aldursflokki.
„Það er nú í eina skiptið sem ég hef unnið til verðlauna sem rithöfundur. Þá var Baldur Pálmason barnatímastjóri og efndi til ritgerðasamkeppni fyrir krakka. Það var gefin út bók með þessum ritgerðum sem hét Þegar ég verð stór. Þetta voru ritgerðir um það hvað maður ætlaði að verða þegar maður yrði stór og hvernig manni litist á fullorðna fólkið. Ég fékk Nonnabækurnar minnir mig, í verðlaun.“
Eyvindur er spurður um annað listform en leiklistina.
„Ég held að ég sé fyrst og fremst teiknari og málari. Það er þannig að þegar ég mála málverk þá gleymi ég mér alveg og gleymi meira að segja að reykja og er ég nú reykingamaður töluverður.“
Hvað ertu búinn að reykja lengi?
„Í 70 ár, ætli ég hafi ekki verið 16 ára þegar ég byrjaði.“
Hvað finnst þér tóbakið gera fyrir þig?
„Það dregur úr æsingi, heldur manni í jafnvægi og ég er ekki frá því að það skerpi hugsunina.“
Milljónafélagið var eitt af verkefnum Eyvindar.
„Þetta átti að verða kvikmynd um erindisleysuna miklu. Það voru margir sem lögðu þessu lið og þegar ég kom til Ágústs á Brúnastöðum var hann úti í kofa að sækja kartöflur og keypti alveg hiklaust hlutabréf í félaginu.“
Spurður um heitið, Erindisleysan mikla, sem segi svo margt, en segi samt ekki neitt, segir Eyvindur að þegar djúpt sé kafað þá þýði þetta að líf mannanna sé erindisleysa.
Blaðamanni bregður og spyr hvort honum sé virkilega alvara og grípur til setningarinnar sem Eyvindur notaði þegar þeir heilsuðust.
Ja, nú lýgurðu!
„Já, já, alltaf fær maður það í hausinn sem maður lætur frá sér.“
Eyvindur, eru það skilaboðin frá þér að líf mannanna sé erindisleysan mikla?
„Ja, þessi kvikmynd fjallaði um það.“
Talið berst að draugum og ferð Eyvindar og vina hans til Brussel.
„Ég varð nú stundum var við drauga þegar ég var krakki, en mér var bannað að trúa á þá og kennt að ef ég sæi draug þá ætti ég að ganga beint á hann. Ég gerði eins og mér var sagt og þá hurfu þeir alltaf. Stundum reyndust þetta nú bara vera gamlar heyyfirbreiðslur sem hafði verið hent út á tún.“
Eyvindur segir að ferðin til Brussel hafi verið farin til að neyða Evrópusambandið til að láta þá fá ríflegan fjárstyrk til þess að heiðra minningu drauga.
Ferðin var farin í nafni Álfa- og tröllafélagsins og þau sem fóru út ásamt Eyvindi voru Valur Lýðsson, Þór Vigfússon, Hafliði Magnússon, Bjarkar Snorrason, Bjarni Harðarson, Eva María Jónsdóttir, Freyr Arnarson og Kristín Heiða Kristinsdóttir, ásamt Bretunum Rod Summers listamanni og Brian Catling prófessor við Oxford.
„Við ætluðum að skrifa bók um drauga og reisa mikið minnismerki. Við fengum enga peninga hjá Evrópusambandinu og ég held að við höfum nú verið að þessu með hálfum huga.“
Varstu harður í horn að taka við leikara þegar þú varst leikstjóri og kannski illmenni undir niðri?
„Ég gat nú kannski verið illmenni að því leyti til að ég gat verið vondur við þá sem sleiktu sig upp metorðastigann með minni hjálp.“
Hafði það áhrif á feril þinn hér heima að þú varst menntaður í Rússlandi?
„Það hafði mikil áhrif. Helvítis íhaldið réðst alls staðar á mig fyrir þetta, því það átti að stafa af mér svo mikil kommúnistahætta.“
Varstu kommúnisti?
„Nei, ég náði því nú aldrei.“
Hvar liggur þú í pólitík, ef þú vilt gefa það upp?
„Ég kaus nú alltaf með þeim sem voru næstir því að vera kommúnistar. Ég kaus Guðna.“
Þegar líða tók á samtalið tók einn þremenninga pela úr vasa sínum sem var áður í eigu séra Roberts Jack. Sá okkar taldi að rússneskur vodki væri uppáhaldsdrykkur Eyvindar og þar sem viðskiptabann er við Rússland þurfti að hafa heilmikið fyrir því að komast yfir drykkinn.
Eyvindur smakkaði á vodkanu og sagði að vissulega væri þetta gott, en besta vín sem hann hefði smakkað væri armenskt koníak.
„Vodka er nú bara hreinn spíritus, en koníakið þeirra frá Armeníu er látið standa í allt að 13 ár í rauðvínstunnum og það er besta áfengi sem ég hef smakkað.“
Hvað var það skemmtilegasta sem þú gerðir í lífinu?
„Það var að sofa.“
Með vodkanu var kveikt í tóbaki og eftir eitt vodkastaup söng Eyvindur Kristján í Stekkholti og í framhaldi af því rifjaði hann upp trésmiðakvartettinn úr Breiðholtskirkju og söng Lambið mitt með blómann bjarta, en það er sungið með sama lagi og Bráðum koma blessuð jólin.
Lambið mitt með blómann bjarta,
ber það gull í hnakkanum.
Hillir undir hrútinn svarta,
hinum megin á bakkanum.
Talið barst að skáldskap, Hallgrími Péturssyni og lestri Eyvindar á Passíusálmunum í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa, sem hann flutti í áratugi.
„Ég kann ekki bara passíusálma Hallgríms, ég kann líka níðvísu eftir hann um mann sem hét Einar og var frá Vogum.“
Fiskurinn hefur þig feitan gert,
sem færður er upp með trogum.
En þóttú digur um svírann sért,
samt ertu Einar í Vogum.
Umræðuefnið fór að snúast meira um áfengi eftir því sem gekk á pelann.
„Ég held að ég sé eini maðurinn sem kom áfengi ofan í Árna Johnsen. Ég var með tvo pela, annan með viskí og hinn með lýsi. Flestir sáu nú í gegnum þetta og fengu sér snafs af viskíinu, en aumingja Árni lét plata sig með þetta og tók það sem hann hélt vera lýsispelann og drakk alveg ofan í hálfa flösku. Hann leit á mig og sagði: „Helvítis kvikindið þitt.““
Og varð hann fullur?
„Ég sá það nú ekki, honum tókst að leyna því.“
Þegar Þjóðarbókhlaðan var í smíðum á níunda áratugnum var Eyvindur spurður hvernig honum fyndist rauði liturinn á húsinu.
„Liturinn á vel við, því rauður er litur djöfulsins og hann kenndi manninum að lesa til þess að hann myndi að lokum tortíma sér með tækninni.“
Spurður hvort hann muni eftir þessu svarar hann ekki, en rifjar upp sögu af Steini Steinari.
„Steinn Steinarr lamdi Jóhannes úr Kötlum með priki af því að hann hafði kennt honum að lesa.“
Af hverju gerði hann það?
„Út af því að með því að læra að lesa varð hann skáld og þurfti að þola allskonar þjáningar og brennivínsleysi.“
Eyvindur kvaddi okkur með þessum söng.
Ef ég væri ógnarlangur áll
örmjór og háll,
þá skyldi ég alltaf alltaf
hringa mig, utan um þig.
Hjartað í mér er,
eins og bráðið smér,
úti er um mig,
ef ég missi þig.
Þú ert mitt eina lífsins kóngaljós,
ljúfasta drós.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
/frimg/1/60/28/1602889.jpg)