Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, sem tilkynnti í gær um ákvörðun sína að draga framboð sitt til varaformanns flokksins til baka, segir ákvörðunina ekki hafa verið erfiða.
„Maður er búinn að vera í þessu lengi. Ég mat stöðuna einfaldlega þannig að þetta væri gott fyrir flokkinn og gott fyrir það þeirra sem nær póstinum í dag.“
Kosið verður um varaformann á landsþingi Miðflokksins á Hilton Reykjavík Nordica Hótelinu í dag en í framboði eru þingmennirnir Snorri Másson og Ingibjörg Davíðsdóttir.
Bergþór segir í samtali við mbl.is um ástæðu þess að hann ákvað að draga framboð sitt til baka að hann hafi fundið löngun gesta á þinginu til þess að andlitunum í forystu flokksins myndi fjölga.
„Mér finnst bara sjálfsagt að verða við því og stíga til hliðar í þessum slag. Ég er ekki að fara neitt og verð bara á fullu í mínum störfum áfram og óska þeim Snorra og Ingibjörgu alls góðs í dag,“ segir Bergþór.
Þingið hefur tekist frábærlega að mati Bergþórs sem telur að ákvörðun sín um að draga sig út úr kapphlaupinu um varaformannssætið verði góður upptaktur að frekari sókn Miðflokksins og muni breikka ásýnd forystunnar.
Styðurðu annað hvort varaformannsefnið fremur en hitt?
„Nei, ég ætla nú bara að leyfa þeim að takast á um embættið. Ég taldi ekki rétt að ég væri að stíga inn í það með þeim hætti. Ég óska þeim bara báðum góðs gengis.“