Sakar utanríkisráðherra um valdníðslu

Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, segir að viðskiptaþvinganir sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir beitir nú norðlenska iðnfyrirtækið Vélfag séu táknrænar og til þess gerðar að ganga í augun á Evrópusambandinu.

Þetta kemur fram í viðtali á vettvangi Spursmála þar sem rætt er um stöðu fyrirtækisins en það hefur sætt viðskiptaþvingunum síðustu mánuði af hálfu utanríkisráðuneytisins vegna gruns um að eignarhald fyrirtækisins tengist rússneskum viðskiptamanni.

Öll fyrirliggjandi gögn segir Sigurður G. að staðfesti að eigandi að ríflega 80% hlut í fyrirtækinu sé maður sem sé með ríkisborgararétt í Lichtenstein og Sviss. Ráðuneytið taki það hins vegar ekki trúanlegt og án þess að færa fram sönnur á annað krefst ráðuneytið þess að frekari gögn séu lögð fram til þess að staðfesta eignarhaldið.

Ísland sé þjóð meðal þjóða

Segir Sigurður að ráðherra hafi gripið til þessa ráðs til þess að geta sýnt erlendum stjórnvöldum að íslenska ríkið sé virkur þátttakandi í aðgerðum gegn Rússum.

Bendir hann á að með svipuðum hætti hafi verið gengið fram þegar ríkissaksóknari tók upp á því að ákæra menn þvers og kruss fyrir peningaþvætti, allt þar til Hæstiréttur sló á puttana á embættinu og sagði saksóknara að hætta að ákæra fyrir ákvæði sem ekki áttu við í viðkomandi málum.

Fullyrðir Sigurður að verið sé að fórna Vélfagi fyrir málstaðinn, málatilbúnaðurinn komi í raun fyrirtækinu sjálfu ekkert við. Aðgerðirnar séu hins vegar til þess gerðar að murka líftóruna úr fyrirtækinu sem geti ekki staðið við skuldbindingar sínar til lengri tíma af þeim sökum.

Orðaskiptin um þetta í Spursmálum má sjá í spilaranum hér að ofan.

Hér að neðan má sjá viðtalið við Sigurð í heild sinni:

Sigurður G. Guðjónsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Sigurður G. Guðjónsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert