Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður, íhugar nú að gefa kost á sér sem oddviti flokksins í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Töluverður fjöldi fólks hefur skorað á hann að gefa kost á sér og hefur ákallið stigmagnast undanfarið.
Þetta segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ frá því árið 2018, tilkynnti fyrr í dag að hún hygðist ekki gefa kost á sér í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Vilhjálmur segir það hafa legið fyrir í töluverðum tíma að Margrét ætlaði ekki fram aftur. Þessi tilkynning hennar hefur því engin áhrif á ákvörðun hans, en hann liggur enn undir feldi.
„Ég sé töluverð tækifæri í Reykjanesbæ. Maður er ánægður að fá svona fjölbreyttar áskoranir, það fær mann til að hugsa þetta alvarlega. Það hafa ótrúlega margir komið að máli við mig yfir töluverðan tíma, síðasta árið eða svo, og það er að stigmagnast núna.“
Sjálfstæðisflokkurinn er í minnihluta í bæjarstjórn í Reykjanesbæ en meirihlutann skipa Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Bein leið.
„Mér finnst það grundvallarmál að Sjálfstæðisflokkurinn komist þarna í meirihluta til þess að stýra ýmsum málum eins og skipulags- og menntamálum á rétta braut. Ekki síst er mikilvægt að nýta tækifærin sem svæðið hefur til að auka lífsgæði bæjarbúa. Það eru fá sveitarfélög á landinu sem búa yfir jafnmiklum tækifærum og Reykjanesbær,“ segir Vilhjálmur.
Ef þú færir fram í Reykjanesbæ myndir þú þá segja af þér þingmennsku?
„Það færi eftir árangrinum í kosningunum. Ef ég færi fram væri það til að fara alla leið í bæjarstjórastólinn og ég sæi ekki fram á að sinna því hlutverki samhliða þingmennsku.“
