Sonurinn allt annað barn: „Brosið er orðið einlægt“

Sonur Maríu er í meðferð í Suður-Afríku og hefur náð …
Sonur Maríu er í meðferð í Suður-Afríku og hefur náð ótrúlegum bata eftir aðeins tvo og hálfan mánuð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir rúmlega tveggja mánaða dvöl á meðferðarstofnun í Suður-Afríku er sextán ára sonur Maríu Sifjar Ericsdóttur í fyrsta skipti farinn að taka ábyrgð og horfa til framtíðar. Hann langar að verða eitthvað. Drengurinn hefur glímt við alvarlegan fíknivanda, oft verið stjórnlaus af neyslu og hætt kominn, ásamt því að hafa hlotið dóma.

María gafst upp á úrræðaleysinu hér heima og tók erfiða ákvörðun um að senda soninn út í kostnaðarsama meðferð hinumegin á hnettinum. Hún sér ekki eftir því, enda er hann orðinn allt annað barn.

„Það að hafa séð þau þarna úti og hvernig þau vinna og hvernig hann er þarna, það er magnað. Ég á eiginlega ekki nógu sterk orð yfir það,“ segir María í samtali við mbl.is, en hún er nýlega komin heim eftir að hafa heimsótt soninn til Suður-Afríku.

Langar að deila reynslunni hér heima

Breytingarnar sem hafi orðið á drengnum eftir ekki lengri tíma séu hreint út sagt ótrúlegar.

„Í fyrsta skipti á ævinni er hann farinn að taka ábyrgð á sjálfum sér og standa með sjálfum sér. Brosið er orðið einlægt. Hann er ADHD-barn og frá því hann byrjaði að skríða hefur hann aldrei verið kyrr, en hann sat með mér í einni heimsókninni í fjóra klukkutíma uppi í sófa að spjalla,“ segir María og rifjar upp þessa dýrmætu stund sem þau áttu saman.

„Hann fer eftir öllum reglum þarna og hann langar að vera úti í ár, vera edrú í ár, til að geta komið í heim og sýnt þeim í Blönduhlíð hvernig á að kenna krökkunum að vera edrú.“ Vísar hún þar til meðferðarheimilis hér á landi þar sem drengurinn lauk tólf vikna meðferð fyrr á þessu ári.

Í Suður-Afríku er um að ræða níu til tólf mánaða vímuefnameðferð á meðferðarstofnuninni Healing Wings í nágrenni borgarinnar Nelspruit. Annað íslenskt barn dvelur einnig á stofnunni og tvö hafa lokið þar meðferð. Þá eru tvær íslenskar mæður á leið út með fjórtán ára syni sína í vikunni, en þær hrundu af stað söfnun til að greiða fyrir meðferðina, enda niðurgreiðir íslenska ríkið ekki meðferð fyrir börn í útlöndum. 

Synir þeirra glíma báðir við alvarlegan vímuefnavanda en meðferð hér heima hefur ekki skilað árangri. Í samtali við mbl.is sagði önnur móðirin, Ingibjörg Einarsdóttir, að sonur hennar hefði það ekki af þyrfti að hann að bíða mikið lengur eftir úrræði. Dagarnir fram að brottför færu í að reyna að halda honum á lífi. Þær binda báðar vonir við að meðferðin í Suður-Afríku verði sonum þeirra lífsbjörg.

Barnavernd neitaði þeim að fara út

Fyrsta skrefið á þeirri vegferð að koma syni Maríu út var að fá hann sjálfan til að samþykkja að fara í meðferð, sem hann gerði á endanum.

„Hann samþykkti að fara út, með skottið á milli lappanna, en hafði þá fengið átta tækifæri til að sýna mér að hann þyrfti ekki að fara. Og hann var búinn að klúðra fimmtán öðrum tækifærum.“

María fann að drenginn langaði að að komast út úr öllu ruglinu þó hann ætti erfitt með halda sig á beinu brautinni. Enda vantaði afgerandi inngrip. Hann sá meðferð í útlöndum því sem fýsilegan valkost.

„Það var komin reiði í hann. Þetta var alltaf sama tuggan; neyðarvistun og biðlistar.“

Maríu var eðlilega mjög létt þegar það kom í ljós að drengurinn fengi pláss á meðferðarstofnuninni og næsta skref var að fara með hann út. Það átti þó eftir að verða þrautin þyngri og kosta blóð, svita og tár, til viðbótar við allt annað sem gengið hafði á.

María hefur alltaf verið í góðu samstarfi við barnaverndarfulltrúan þeirra í Kópavogi. Hún var í sumarfríi þegar það var staðfest að drengurinn væri kominn með pláss í meðferðinni úti, þannig María lét yfirmann hjá barnaverndinni vita í staðinn. Viðbrögðin voru í fyrstu jákvæð og fréttunum tekið fagnandi, að sögn Maríu. Síðar um daginn var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn. Hún fékk símtal frá barnaverndinni þar sem henni var tjáð þau gætu ekki leyft henni að fara með drenginn út, þar sem þau þekktu ekki til meðferðarstofnunarinnar.

„Hann er á skilorði og var búinn að brjóta skilorðið sitt. Inni í skilorðinu var að barnavernd ætti að sjá um að koma honum í viðeigandi langtímaúrræði, en það er ekki til á Íslandi eins og er,” bendir María á.

Eins og ítrekað hefur verið fjallað um á mbl.is þá hefur ekki verið starfrækt langtímameðferðarheimili fyrir drengi hér á landi í eitt og hálft ár, eða frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu í apríl á síðasta ári. Til stendur þó að opna heimilið í Gunnarsholti í Rangárþingi í janúar á næsta ári. 

„Þau voru ekkert að stressa sig á því að finna eitthvað annað úrræði, enda ekkert annað að finna.“

Lenti í öndunartoppi og sprautaður niður 

Neitun barnaverndar kom tíu dögum áður en til stóð að halda út og átti María í stanslausum bréfaskriftum og samtölum við barnavernd allan þann tíma.

„Þau sögðu að við mættum fara með hann til útlanda en við þyrftum að koma með hann aftur. Ef við foreldrarnir myndum ekki koma með hann heim þá yrðum við handtekin fyrir að skilja hann eftir úti,“ segir hún og heldur áfram:

„Þau lögðu til að hann færi aftur inn á Blönduhlíð. Svo í september eða í síðasta lagi október yrði opnað meðferðarheimilið í Gunnarsholti og hann færi þangað. Það var það sem Barna- og fjölskyldustofa lagði upp með, en það er enn ekki búið að opna Gunnarsholt og ef ég hefði treyst á það sem þau sögðu þá værum við bara enn þá á sama stað. Enn þá í biðstöðu. Ef hann hefði lifað biðina af.“

Drengurinn er greindur með ADHD, er hvatvís og með námsörðugleika, en María hefur áður sagt sögu hans í viðtali á mbl.is og gagnrýnt það úrræðaleysi sem blasti við þegar hún reyndi að fá fyrir hann hjálp. Sú þrautarganga hófst löngu áður en ástandið varð jafn alvarlegt og það er í dag.

Tæp tvö ár eru síðan hann byrjaði að fikta, drekka og reykja gras en eftir að hann var rekinn úr skóla var hann í „frjálsu falli“ eins og María orðaði það í viðtalinu í mars síðastliðnum. Neyslan varð fljótlega stjórnlaus en hann þurfti að bíða mánuðum saman eftir að komast í meðferð, meðal annars vegna sumarlokana. 

Á meðan hann beið var hann inn og út af neyðarvistun Stuðla, lenti í öndunarstoppi eftir að hafa tekið falsaðar xanax-töflur og var vistaður á geðgjörgæslu Landspítalans þar sem hann var sprautaður niður. Hann fékk loks inni á meðferðarheimilinu Blönduhlíð sem opnað var á Vogi í febrúar á þessu ári. Þar lauk hann tólf vikna meðferð með litlum árangri, en hann var í neyslu þar nánast allan tímann. Þar sem ekkert langtímaúrræði tók við fór hann fljótlega aftur sama farið og áður. Það var þá sem María fór að kynna sér úrræði fyrir utan landsteinana. Ætti sonur hennar að hafa það af, yrði hann að komast í markvissari meðferð í lengri tíma.

„Hann reyndi alltaf að taka sig á í smá tíma, en þá var allt heimilisfólk á tánum. Ég hugsaði líka þegar ég átti í þessum samtölum við barnaverndina að þetta væri fáránlegt, að ætla að setja hann aftur í eitthvað sem hann var búinn með og augljóslega virkaði ekki. Ég hafði heldur enga trú á að hann kæmist inn í Gunnarsholt í október,“ segir María.

Blönduhlíð er ekki lokað úrræði og geta börnin í raun gengið þar inn og út að vild og á tímabili struku þau út um glugga á annarri hæð. Það er því auðvelt fyrir þau að sækja sér fíkniefni og koma með inn á heimilið þar sem leit er takmörkuð.

Reyndu að fá úrskurð um farbann

Barnaverndin reyndi að fá úrskurð um farbann yfir syni Maríu, en starfsmaður fangelsismálastofnunar, sem heldur utan um mál sakhæfra einstaklinga undir lögaldri, kom til bjargar og sagði foreldrunum heimilt að fara með drenginn úr landi ef þau teldu það best fyrir hann, að hennar sögn. 

„Þannig við ákváðum að fara með hann og þegar þeir feðgar voru að millilenda í Frankfurt þá fékk ég símtal frá barnaverndinni um að þau samþykktu að hann færi til Suður-Afríku. En við við vorum búin að ákveða að gera það sem við töldum best.“ Þeir fegðgar voru því komnir af stað áður en leyfið fékkst.

„Þau báru alltaf fyrir sig að þau þekktu ekki til meðferðarinnar, en við fórum á fund þar sem ræðismaður Íslending í Suður-Afríku var með okkur í símaviðtali, en hún þekkir til þessarar meðferðar og þekkir hin börnin sem hafa farið. Hún var alveg grjóthörð og spurði af hverju þessi meðferð ætti að vera eitthvað síðri en á Íslandi. Þannig hún hjálpaði líka til,” útskýrir María.

Hún hefur haldið áfram samskiptum við barnaverndina eftir að sonur hennar fór út, meðal annars vegna þessa að hún vill að sveitarfélagið taki þátt í kostnaði við meðferðina, þar sem sambærilegt úrræði er ekki í boði hér heima. Svörin sem hún fær eru þó alltaf á þá leið að þau hafi ekki náð sambandi við meðferðarstofnunina eða fengið myndsímtal við drenginn.

„Mér finnst það svo fáránlegt, en burtséð frá því held ég að það myndi bara trufla hann ef þeir sem hafa verið að pönkast í honum hér heima, eru allt í einu komnir út að tala við hann, þó það sé bara í myndsímtali. Ég er búin að segja að ég hafi farið út og hitt hann og að honum líði ótrúlega vel. Hann sé allt annað barn.“

Fengu ekki að tala við hann í 3 vikur

Líkt og áður sagði er María nýkomin heim eftir að hafa heimsótt soninn til Suður-Afríku. Hún bjóst við að það yrði erfitt að koma aftur heim eftir heimsóknina, skilja drenginn eftir, en það varð ekki raunin. Henni fannst vissulega erfitt að fara, en var meðvituð um að hann væri í góðum höndum. Á réttum stað. Það gerði allt auðveldara.

Hún segir meðferðarúrræðið úti gjörólíkt því sem þekkist á Íslandi. Þá skipti miklu máli að stofnunin sé staðsett úti í sveit og að samskipti við umheiminn séu takmörkuð í upphafi meðferðar.

„Auðvitað er búið að taka hann úr umferð hérna heima en munurinn á því að vera úti í sveit þar sem er ekki farið á öðrum degi meðferðar í dagsleyfi eða með starfsmanni í Nammiland í Hagkaup, þetta er bara tvennt ólíkt,“ segir María og vísar til þess fyrirkomulags sem viðhaft er bæði á Stuðlum og í Blönduhlíð. 

Þá er það hennar upplifun að starfsfólk á neyðarvistun hér heima og á meðferðarheimilum, megi ekki setja börnunum mörk nema að takmörkuðu leyti.

Fyrstu þrjár vikurnar í meðferðinni fékk drengurinn ekki að eiga samskipti við neinn utanaðkomandi, ekki einu sinni foreldra sína. María fékk bara talskilaboð frá ráðgjafanum hans með upplýsingum um hvernig gengi og hvar hann væri staddur. 

„Þetta var ógeðslega erfitt fyrir hann. Hann var neikvæður og pirraður, en ástæðan fyrir því hann átti ekki að hafa samskipti við umheiminn var til að sýna honum að þau myndu grípa hann og vera til staðar fyrir hann. Annað en á neyðarvistun hér heima, þá voru bara sautján símtöl yfir daginn.“

Hún viðurkennir að hafi líka verið áskorun fyrir hana sjálfa að heyra ekkert í syninum í svona langan tíma. Nú fá foreldrarnir báðir tíu mínútna myndsímtal við hann á viku og hún sér jákvæðar breytingar á honum í hvert skipti.

„Við lærum bæði mikið á þessu.“

Upplifði meðferðarheimilið sem geymslu

Í meðferðinni er líka gert út á jafningjastuðning, þannig drengirnir hjálpa hver öðrum með ýmsar áskoranir sem koma upp. Ef samskiptin á milli einhverra eru neikvæð eða þeir virðast hafa slæm áhrif hver á annan er samskiptabann sett á. Þeir mega eiga samskipti við matarborðið en ekki vera tveir einir saman.

„Miðað við hérna heima þá sitja þeir bara í stofunni inni á neyðarvistun og eru í neyslutali og hanga í tölvunni á meðan starfsfólkið situr kannski inni á vakt. Ég var farin að upplifa að þetta væri bara geymsla fyrir krakkana og svo þegar þau verða átján ára, eins og minn er með dóma á sér, þá fer hann þá bara inn á Hólmsheiði í aðra geymslu? Jú vissulega fá þau fara í Nammiland en ef barn kýs að fara ekki í sálfræðiviðtal þá er það bara þannig.“

María segist eiga erfitt með að skilja af hverju stjórnvöld vildu ekki láta reyna á að opna aftur meðferðarheimili í Háholti í Skagafirði, líkt og var í umræðunni fyrr á þessu ári þegar húsnæðið fór á sölu. Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, vildi láta skoða það af alvöru en mennta- og barnamálaráðherra sló það út af borðinu. Voru rökin meðal annars þau að fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu væri of mikil og að erfitt væri að fá fagfólk til starfa.

Háholt var sérstaklega byggt sem meðferðarheimili og rekið sem slíkt í tuttugu ár, eða til ársins 2017, en árið 2014 var var farið í töluverðar endurbætur á húsnæðinu og síðustu árin var þar öryggisvistun fyrir börn. 

Ástæða lokunarinnar var lítil eftirspurn og var vísað til þess að meiri áhersla hefði verið lögð á svokallaða fjölkerfameðferð (MST) í starfi Barnaverndarstofu, og samhliða hefði dregið úr þörf á stofnanameðferð. En MST meðferð fer fram á heimili fjölskyldunnar og gerð er krafa um að barnið búi á heimilinu.

Í því samhengi er vert að taka fram að staðan í málefnum barna með fjölþættan vanda hefur gjörbreyst og versnað til muna frá árinu 2017. Lögreglan, starfsfólk barnaverndar og aðrir fagaðilar sem mbl.is hefur rætt við fullyrða að staðan hafi í raun aldrei verið verri, meðal annars vegna úrræðaleysis og ýmissa breytinga sem hafa átt sér stað í samfélaginu. Fleiri og yngri börn dragast hraðar inn í harðari neyslu, ofbeldisbrot eru algengari, leitarbeiðnir hafa aldrei verið fleiri, börnum í gæsluvarðhaldi og afplánun fjölgar og vistundardagar barna á neyðarvistun hafa aldrei verið fleiri.

Margir hafa bent á mikilvægi þess að bjóða upp á meðferðarúrræði fjarri þéttbýli svo börnin eigi erfiðara með að komast í fíkniefni og strjúka. 

Hagkvæmara fyrir ríkið að senda börnin út

María telur meðferðarúrræðin hér heima ekki geta mætt börnum með þyngsta vandann.

„Þetta er eins og maður sé að fara með barnið sitt til hjartalæknis en allt í einu er maður staddur hjá tannlækni.“

Sjálf var María vistuð á unglingaheimilinu Tindum þegar hún var unglingur og hún minnist þess að fyrirkomulagið hafi verið meira í líkingu við það í Suður-Afríku, heldur en á meðferðarheimilum hér á landi í dag.

„Það er brjáluð sjálfsvinna þarna úti og fíknifyrirlestrar. Minn vinnur heimavinnu þar sem hann fer í einkaviðtöl, svo eru líka hópar. Mér finnst líka skipta svo miklu máli að fá krakkana til að vinna saman í að styðja hvert annað. Af því hvað eru unglingar annað en sterkustu hjarðdýr veraldar? Það þarf að nota það, ekki að það hver og einn sé í sinni holu.“

Maríu finnst að á meðan ekki er hægt að bjóða upp á alvöru langtímameðferð fyrir börn og unglinga hér á landi eigi ríkið að niðurgreiða meðferð fyrir börn í útlöndum

Hún bendir á að mánuðurinn á meðferðarheimilinu í Suður-Afríku kosti um 300 þúsund krónur og telur það hagkvæmara fyrir ríkið en að börnin séu hér heima, miðað við úrræðaleysið og afleiðingarnar af því. Þá sé mikilvægt að foreldrar hafi val.

„Það er tekið af foreldrum að hafa eitthvað um það að segja hvað þau telja best fyrir barnið sitt. Ég er búin að gefa öllum kerfum hér heima séns á að hjálpa en staðan hefur bara versnað. Það gerist allt svo hratt hjá þessum krökkum.“

Hefur nú upplifað sannar tilfinningar

María segist hafa haft samband við Barna- og fjölskyldustofu áður en hún tók ákvörðun um að fara út með drenginn og spurt hvort einhver frá þeim myndi vilja skoða úrræðið með henni. „Það var eiginlega bara hlegið upp í opið geðið á mér.“

Hún er hins vegar sannfærð um að hafa tekið rétta ákvörðun með því að senda drenginn út í meðferð.

„Þarna fær hann að vera edrú í að lágmarki níu mánuði og framheilinn fær að þroskast í friði. Og ef hann tekur feilspor þegar hann kemur heim þá verður auðveldara fyrir hann að koma til baka af því hann er búinn að fá að upplifa sannar tilfinningar og vera til.“

Sama hvað gerist þá verði staðan allt önnur en áður.

„Hann er allt í einu kominn með framtíðarplön í lífinu. Hann langar að verða eitthvað og hlakkar til að koma heim og hjálpa mér með heimilið,“ segir María og hlær.

Kallað eftir rannsókn á afdrifum barna

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, sagði í vikunni að það væri ekki áfellisdómur yfir barnaverndar- og meðferðarkerfinu að foreldar leiti til Suður-Afríku með börn sín í meðferð. Sagði hann það val hverrar fjölskyldu að leita eftir aðstoð út fyrir landsteinanna en þá hefðu íslensk stjórnvöld ekkert með það að gera lengur. Ráðherrann sagði jafnframt að meðferðin í Suður-Afríku væri til skoðunar hjá ráðuneytinu.

Kveður þar við nýjan tón því í skriflegu svari mennta- og barnamálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is í júní sagði að ekki stæði til að skoða þann möguleika að senda börn til útlanda í meðferð. Frekar ætti að leggja áherslu á að hraða uppbyggingu faglegra úrræða sem næst fjölskyldu hér á landi.

„Ef nýta ætti erlend meðferðarúrræði fyrir meðferð á ábyrgð íslenskra stjórnvalda þyrfti að horfa til lagaumhverfis á Íslandi, alþjóðlegra skuldbindinga, faglegs inntaks meðferðarinnar, réttarstöðu barna og ábyrgðar ef slíkt úrræði bregst með alvarlegum afleiðingum fyrir barnið,“ sagði jafnframt í svari ráðuneytisins.

Þá var greint frá því í vikunni að umboðsmaður barna hefði óskað eftir því við forsætisráðherra að það færi fram rannsókn á afdrifum barna sem vistuð hafa verið í meðferðarúrræðum á vegum ríkisins. 

Telur umboðsmaður mikilvægt að lagt sé mat á það hvort meðferðarkerfið skili tilætluðum árangri og hvort veitt sé þjónusta sem raunverulega gagnast þeim skjólstæðingum sem þjónustuna þiggja. Enda séu vísbendingar um að eftir átján ára aldur standi þessi hópur höllum fæti í samfélaginu á mörgum sviðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert