Það hafa verið alls konar dalir

Thelma er hönnuður Bleiku slaufunnnar í ár. Hún er sjálf …
Thelma er hönnuður Bleiku slaufunnnar í ár. Hún er sjálf með krabbamein sem liggur nú í dvala. mbl.is/Ásdís

Thelma mætti fersk úr sundi á kaffihús Systrasamlagsins einn morgun í vikunni til fundar við blaðamann. Það er bjart yfir henni og á höfðinu er hún með bleika húfu sem á stendur Kraftaverk. Það á vel við, því Thelma segist vera gangandi kraftaverk en veit að vágesturinn liggur í leyni og gæti bankað upp á hvenær sem er. Thelma greindist fyrir rúmu ári með fjórða stigs ólæknandi krabbamein en með hjálp lyfja og heilbrigðu líferni greinist krabbinn ekki lengur í líkama hennar. Hún á góða daga og slæma daga en kýs að lifa lífinu lifandi, jákvæð og glöð.

Amma var innblásturinn

„Ég hef alltaf verið að vinna með rósettur, sem er í raun grunnurinn að rósettunni í Bleiku slaufunni minni,“ segir Thelma, en hún sækir innblástur til ömmu sinnar sem var mikil hannyrðakona.

„Amma dó stuttu eftir að ég greindist og það var áfall ofan á áfall. Ég erfði allt saumadótið hennar. Þegar ég var valin til að hanna slaufuna fór ég á vinnustofuna og opnaði allar kistur, þar á meðal eina kistu frá ömmu. Þar lá efst skúffunni hálfgerð útgáfa af þessari slaufu. Ég tók þessu sem skilaboðum til mín og fléttaði þetta saman við rósettuna mína og úr varð þessi Bleika slaufa. Þannig að við eigum þessa slaufu saman, ég og amma.“

Slaufan í ár er hönnuð af Thelmu Björk.
Slaufan í ár er hönnuð af Thelmu Björk.

Kraftaverk gerast enn

Í ársbyrjun 2024 greindist Thelma, rétt rúmlega fertug, með krabbamein og lífið snerist á hvolf. 

„Fyrsta brjóstamyndatakan hjá konum er um fertugt og ég fór þá og ekkert sást. Í desember 2023 fann ég stóra kúlu í brjóstinu og sama dag var ég einmitt hjá lækni vegna fæðingarbletta. Ég sagði honum í leiðinni frá kúlunni og hann sagði mér að hringja á heilsugæslu, fá skoðun og þeir myndu svo bóka mig í myndatöku. Ég geri það strax og fæ tíma en fæ því miður þau svör að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur; ég væri það ung og að þetta væri líklega stíflaður fitukirtill. Ég var send heim en var sagt að hafa samband eftir jól ef ég væri enn að pæla í þessu,“ segir Thelma og segist hafa verið sagt að kúlan tengdist jafnvel breytingaskeiði.

Spurð um stærðina, svarar Thelma að kúlan hafi verið á stærð við skopparabolta. Jólin liðu, janúar og febrúar og enn var Thelma óróleg því kúlan var enn til staðar. Hún fékk svo loks tíma hjá Brjóstamiðstöðinni í kringum mánaðamótin febrúar/mars.

„Um leið og myndin var tekin sást þetta. Ég var strax sett í ómskoðun og mér var sagt að þetta væri ekki stíflaður mjólkurkirtill. Mér var sagt að líklega þyrfti að taka af mér brjóstið. Maður fær fréttirnar í hollum. Mér var svo sagt að þetta væri illkynja krabbamein í brjósti og komið í eitil. Svo var ég sett í jáeindaskanna og þá sáust blettir í beinum,“ segir hún.

Vegna þess að meinið hafði dreift sér, var Thelma aldrei sett í aðgerð.

„Mér var sagt að meinin væru ekki skurðtæk og ekki hægt að lækna þetta,“ segir Thelma, en hún var strax sett á líftæknilyf sem eiga að bæla niður krabbann og halda honum í skefjum. Það hefur tekist vonum framar.

„Æxlið í brjóstinu finnst ekki og sést ekki. Mér líður mjög vel í dag. Þremur mánuðum eftir að ég byrjaði á lyfjunum sást eiginlega ekkert í jáeindaskannanum og sex mánuðum eftir greiningu sást ekkert. Engir blettir í beinum og ekkert í brjóstinu.“

Er það óvenjulegt?

„Þetta er bara kraftaverk. En ég heiðra lækninn minn sem heldur mér á jörðinni og minnir mig á að þetta er í dvala. Ég á helling í mínum bata og passa upp á hugarfarið og heilsuna. Talandi um áfallið, mín mesta heilun var þegar ég þorði að taka ábyrgð á þessu verkefni. En það hafa verið alls konar dalir, upp og niður,“ segir Thelma og kýs að lifa lífinu jákvæð. 

Ítarlegt viðtal er við Thelmu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert