„Ég var ekki mikil hundastelpa sem krakki eða langaði að eignast hund eftir að ég varð fullorðin, en tíkin Hera flutti inn á heimili okkar vegna þess að Saga dóttir mín var rosalega hrædd við hunda þegar hún var lítil.
Hún gat ekki farið í barnaafmæli ef hundur var á heimilinu án þess að gera þyrfti ráðstafanir. Mágkona mín vissi af fjögurra ára labrador-tík sem vantaði nýtt heimili og við slógum til, því við vissum að labrador-hundar eru yfirleitt mjög góðir og auðvelt að kenna þeim. Saga var mjög hissa þegar við sögðum henni frá væntanlegum hundi og hún var ekki viss um að hún væri til í þetta, en örfáum dögum eftir að Hera flutti til okkar var Saga búin að yfirvinna allan ótta við hunda,“ segir Marín Magnúsdóttir sem sendi nýlega frá sér bókina Hera og Gullbrá, en bókin fjallar einmitt um gæðablóðið tíkina Heru.
„Mér fannst ég verða að skrifa þessa bók ef það gæti hjálpað öðrum börnum að vinna bug á ótta sínum við hunda. Þetta er sönn saga af ævintýri okkar með Heru þegar við fjölskyldan fórum í sumarbústað í Húsafelli. Einn daginn þegar við hjónin fórum þar út að hlaupa varð á vegi okkar gæsarungi sem var svo agnarsmár að við stigum næstum ofan á hann. Við leituðum að mömmunni og hinum ungunum, en fundum ekki og þegar við ætluðum að halda áfram þá elti litli ungi okkur. Við reyndum að fara með hann inn í skóg og stinga hann af, en honum tókst alltaf að hafa upp á okkur. Við tókum hann því með okkur í bústaðinn og þar gerðist undrið, tíkin okkar hún Hera kom strax upp að unganum og tók hann að sér. Hún mæðraði hann og gaf frá sér alveg sérstök mömmuhljóð. Þetta var ólýsanlegt, þau urðu hugfangin hvort af öðru, tíkin og gæsarunginn, hann kúrði sig upp að henni, fann hjá henni skjól.“
Marín segir að stelpurnar þeirra hafi líka heillast strax af unganum og ákveðið að hann væri stelpa og ætti að heita Gullbrá.
„Andri maðurinn minn sagði að unginn gæti ekki komið með okkur heim til Reykjavíkur og búið í Hlíðunum, við yrðum að skila honum þangað sem við rákumst á hann. Næstu daga fórum við og leituðum aftur að gæsinni mömmu hans, en ekkert gekk svo hann var áfram með okkur í bústaðnum. Þegar Andri sagði stelpunum að við yrðum að skilja Gullbrá eftir þar sem við rákumst á hana fóru þær að hágráta. Ég hringdi í Húsdýragarðinn og úr varð að við fengum að fara með Gullbrá þangað. Kjarninn í þessari sönnu sögu er að góður vel upp alinn hundur gerir engum mein, ekki einu sinni litlum gæsarunga. Aftast í bókinni eru myndir af Heru og Gullbrá saman og þar er líka QR-kóði sem hægt er að skanna til að skoða myndbönd,“ segir Marín og bætir við að nokkrir skólar séu strax spenntir að fá hana í heimsókn til að lesa upp úr bókinni og hún ætlar að hafa Heru með mér. „Ég hlakka til og vona að okkur Heru takist með nærveru okkar og bókinni að hjálpa börnum að hætta að vera hrædd við hunda.“
Hera er að verða 13 ára en hún hefur árum saman sinnt hundavinaverkefni hjá Rauða krossinum, en það gengur út á að veita þeim sem þurfa félagsskap og hlýju.
„Fljótlega eftir að Hera flutti til okkar fór ég með hana á námskeið til að þjálfa hana upp í að verða Rauðakrosshundur, að fara með mér í heimsóknir til fólks. Þetta gengur út á að brjóta upp daginn hjá fólki, hvort sem það er að glíma við einmanaleika, einangrun, einhvers konar fötlun eða annað. Við Hera eigum þetta sjálfboðaverkefni saman, að heimsækjum ólíka einstaklinga í ólíkum aðstæðum, en Hera er alltaf aðalmálið, því það verða til ákveðnir töfrar í samverustundum með svona góðum hundum eins og Hera er. Ótrúleg vinátta og hlýja myndast við þessa tengingu sem verður til milli hunds og manns þegar sá ferfætti leyfir fólki að koma að sér. Ég finn á fólki hvað hundurinn gefur mikið, og þetta gefur mér líka mikið, því þegar ég kem út í bíl eftir slíkar heimsóknir þá finn ég góða tilfinningu í hjartanu.“
Marín segir að hundar þurfi að standast bæði grunnhundamat og hundavinanámskeið til að vera gjaldgengir í verkefnið.
„Það fá ekki allir hundar samþykki eftir þau námskeið, því þeir þurfa að vera rólegir og hlýða í aðstæðum sem alla jafna eru óvenjulegar fyrir þeim. Slíkar aðstæður eru settar upp á námskeiðunum, til dæmis með hjólastólum og göngugrindum. Yfirvegaður, rólegur og taugasterkur hundur hentar í þetta, en hundurinn þarf líka að vilja láta klappa sér, vilja vera hjá fólki. Hann þarf að gefa mikið af sér og vera mannelskur, vera upptekinn af því að fá smá athygli hjá fólki, sem leiðir af sér spjall og snertingu. Hera er mjög sólgin í slíkt,“ segir Marín og bætir við að hundavinaverkefnið hjá Rauða krossinum sé einstakt.
„Fólk sem tekur þátt í þessu þarf að gera það af virðingu við allt og alla, en úr verður svo fallegt samband milli hunds og manneskju að ég hefði ekki trúað því fyrr en ég kynntist því,“ segir Marín og tekur fram að hún sjálf hafi líka þurft að fara á námskeið hjá Rauða krossinum, um sálgæslu og fleira. „Þetta er smá fjárfesting í tíma að fara í gegnum þetta, en ég mæli hiklaust með því, það er algerlega þess virði.“
Nánar um vinaverkefni á vefsíðu: raudikrossinn.is
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
