Tugir smáskjálfta austan við Sýlingafell í gærkvöld benda til þess að biðin eftir gosi á Reykjanesskaga styttist.
Þetta segir náttúruvársérfræðingur á jarðvakt Veðurstofu Íslands.
„Það var smáskjálftavirkni austan við Sýlingafell í gærkvöldi sem hófst upp úr klukkan átta og varði í svona um það bil klukkustund en svo datt hún út,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á jarðvakt Veðurstofu Íslands.
Segir þetta okkur eitthvað?
„Þetta segir okkur kannski helst að það styttist náttúrulega í þetta gos. Við höfum fengið svona áður, nokkru áður en gos hefst, kannski nokkrum vikum áður. Það þýðir að kvikan er að nálgast einhver brotmörk.
Þrýstingurinn í kvikuhólfinu er alltaf að aukast en svo er þetta alltaf spurning hvenær þrýstingur er nógu mikill til þess að hleypa kvikuhlaupi og eldgosi af stað. Það er svolítið erfitt að segja til um það.“
Sigríður Magnea segir þó að atburðir gærkvöldsins segir til um að sá tímapunktur nálgist.
Miðað við fyrri reynslu mætti gera ráð fyrir tveimur, þremur vikum, kannski mánuði í gos.
„Þetta gerðist síðast fyrir gosið í nóvember í fyrra. Þá kom svona smáskjálftahrina, minnir mig fjórða nóvember og svo gaus 20. frekar en 21., ef ég man rétt.
Í maí í fyrra, þá gerðist þetta aðfaranótt 10. maí og það gaus 29. en hvort þetta sé eitthvað svipað verður svolítið að koma í ljós en við þurfum svolítið að gera frekar ráð fyrir því heldur en ekki.“
Sigríður Magnea segir nánast enga jarðskjálftavirkni hafa verið á svæðinu síðan gosi lauk í sumar þannig að skjálftavirknin í gær hafi virkjað innanhúskerfi Veðurstofu Íslands.
„Síðan dó þetta bara út. Það mældist engin aflögun heldur aðeins jarðskjálftar.“