Ungt, klárt og „peppað“ fólk með skýr markmið

Snorri Másson í pontu á landsþinginu í morgun.
Snorri Másson í pontu á landsþinginu í morgun. mbl.is/Hulda

Snorri Másson segir það vera meiriháttar ábyrgð að vera orðinn varaformaður Miðflokksins. Í embættinu muni hann vinna ötullega í því að hefja innra starf flokksins til vegs og virðingar.

„Ég tel að hér sé að myndast mjög sterk stjórnmálahreyfing sem mun hafa mikil áhrif í bæði landsmálum og sveitarstjórnarkosningum á komandi tímum. Með þessu höfum við líka sent skilaboð um að ég geti líka fengið ákveðið tækifæri til að setja mitt mark, ef ég get, á að hefja þessa margboðuðu siglingu sem við erum á leiðinni í. Við erum að fara að taka flokkinn á næsta stig,” segir Snorri, sem ræddi við blaðamann á loknu kjörinu.

Sigmundur Davíð og Snorri að kosningunni lokinni.
Sigmundur Davíð og Snorri að kosningunni lokinni. mbl.is/Brynhildur

Spurður hvort fleira ungt fólk muni núna ganga til liðs við flokkinn kveðst hann finna fyrir stuðningi úr öllum aldurshópum.

„En ég finn samt að það sem er markvert við þróunina hjá Miðflokknum að undanförnu hefur verið ungt fólk sem er búið að fatta að það verður að velja sér einhvern vettvang til að bjarga þjóðinni sinni frá glötun, ef við getum lýst því sem svo. Það eru auðvitað önnur mál sem vaka fyrir fólki en þetta er vettvangur sem við erum að bjóða upp á,” segir Snorri jafnframt.

Hann nefnir að meðbyrinn sjáist m.a. í „unga, klára og peppaða fólkinu sem er að ganga til liðs við okkur og hefur rosalega skýr markmið. Ef þér er illa við okkur held ég að þú þurfir hafa svolitlar áhyggjur af þessum hópi.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert