„Þegar ég heyri stjórnmálafólk tala eins og eitt útiloki annað, spyr ég: hvað vakir raunverulega fyrir þeim sem vilja að við hugsum svona smátt?“
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í nýrri færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún fjallar meðal annars um 150 milljóna króna fjárstuðning Íslands við alþjóðlegu hinseginsamtökin Outright International og 60 milljóna króna stuðning við verkefnið Römpum upp Úkraínu.
Umrædd fjárframlög hafa vakið mikið umtal en meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þau er Snorri Másson, nýkjörinn varaformaður Miðflokksins, sem gerði þau að umtalsefni sínu í ræðu sem hann flutti á Alþingi í vikunni og hefur vakið töluverða athygli.
Þorgerður hefur nú varist gagnrýninni í fyrrnefndri Facebook-færslu en hún segir þar meðal annars að styrkjunum sé úthlutað í samræmi við þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024–2028, sem samþykkt var einróma á Alþingi.
„Þegar ég hlusta á þá sem segja að hlutverk stjórnmálafólks sé fyrst og fremst að setja súrefnisgrímuna á okkur sem þjóð og láta aðra liggja milli hluta, skynja ég skammsýni og ótta,“ segir í upphafi færslu Þorgerðar sem telur mestu hættuna sem steðjar að hagsmunum Íslands í dag vera að alþjóðakerfið brotni.
Þorgerður segir framlag Íslands til Outright International vera eyrnamerkt verkefnum í þróunarríkjum, þar sem unnið sé með grasrótarsamtökum að fræðslu og efnahagslegri valdeflingu. Áður hefur verið fjallað um háan launakostnað starfsmanna samtakanna hér á mbl.is og Morgunblaðinu.
Auk þess segir Þorgerður styrkinn til verkefnisins Römpum upp Úkraínu vera dæmi um íslenskt frumkvæði sem nýtist beint á erfiðu svæði. Einkaaðilar muni enda jafna framlag ríkisins til verkefnisins.
Utanríkisráðherra segir reynsluna sýna að þeir sem óttist breytingar óttist oft um leið aukið frelsi fólks til athafna og til að vera það sjálft. Hún bendir jafnframt á að gegnum tíðina hafi Ísland sannarlega notið góðs af þróunaraðstoð.
„Það sem færði okkur út úr torfkofunum var ekki ótti heldur hugrekki, hugvit og samvinna. Og við gleymum því stundum að við komumst ekki þangað ein. Frá árunum 1948-52 fékk Ísland til að mynda tugi milljarða í þróunaraðstoð í gegnum Marshall-aðstoðina. Þar unnum við höfðatölumet eins og svo oft áður.“
Þorgerður lýkur færslunni á því að segja það okkar hlutverk að sýna sömu framsýni og kærleik og okkur var veitt með Marshall-aðstoðinni, hugsa stærra, leggja okkar af mörkum og standa vörð um alþjóðasamstarf sem hafi reynst okkur vel.