Jólabókaflóðið er farið af stað og mikil eftirvænting er eftir sumum bókanna sem koma út í ár. Í dag hefur Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur fengið tvo tölvupósta frá „Páli Valssyni“ útgáfustjóra Bjarts og Veraldar þar sem hann er beðinn um að senda Kvöldsónötuna á PDF-formi en bókin er væntanleg úr prentun í byrjun nóvember.
Í morgunsárið sendi hann svohljóðandi póst á Ólaf Jóhann: „Hæ, Geturðu sent mér pdf? Ég finn ekki það núna. bkv.pv.“ Pósturinn var sendur úr netfanginu pall.vallsson@gmail.com og vakti það strax athygli viðtakandans að tvö L voru í Vallsson.
Þegar þrjóturinn fékk engin svör sendi hann aftur skeyti eftir hádegi og nú sást netfangið ekki, heldur aðeins „Páll Valsson“ en þar skrifaði „Páll“: „Hæ, Ég er í Frankfurt og var að leita að handriti. Geturðu sent mér það? bkv. pv“.
Samkvæmt upplýsingum frá Pétri Má Ólafssyni hjá Bjarti/Veröld hafði hinn rétti Páll Valsson ekki beðið Ólaf Jóhann um neitt PDF enda ágætlega grandvar maður og ekki gjarn á að týna dýrmætum handritum.
Hin árlega bókamessa hefst í Frankfurt á miðvikudaginn svo það er ljóst að mati Péturs Más að þrjóturinn er með lágmarksinnsýn í bókabransann. Meiri athygli veki kannski að hann skuli vera með netfang Ólafs Jóhanns sem lítið er í umferð.
Svo sem kunnugt er herjaði bókaþrjótur á útgefendur fyrir fáeinum árum og reyndist það vera Filippo Bernardini sem hlaut síðan dóm fyrir brot sín. Ólíklegt verður að teljast að hann sé kominn aftur á kreik því að hann fékk háa sekt, þótt hann slyppi við fangelsisdóm.
Þó er víst að einhver bókþyrstur herjar á útgefendur og höfunda í von um að komast yfir væntanlegar bækur áður en jólavertíðin fer í fullan gang og ljóst að honum er mjög í mun að komast yfir nýjustu skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar.