Sættir urðu á milli Jóhannesar Sigfússonar, bónda á Gunnarsstöðum, og kaupahéðinsins Jims Ratcliffe eftir að sýslumaður hafði fyrir mistök þinglýst hluta jarðar Jóhannesar að Gunnarsstöðum 1 í Þistilfirði í eign Ratcliffe.
Fyrir vikið átti Ratcliffe hluta af heimili, fjárhúsum, gripahúsum og fleiru sem er á jörð Jóhannesar – að nafninu til hið minnsta – í um tvö ár.
Eftir að Jóhannes hótaði riftunarmáli komst skriður á málið og fjölskylduvinur Ratcliffe hitti Jóhannes á fundi. Úr varð að málið leystist farsællega án aðkomu dómstóla.
Þannig hljómar frásögn Jóhannesar sjálfs af málinu. Deilurnar eiga rætur að rekja til þess þegar Jim Ratcliffe keypti Brúarland, næstu jörð við Gunnarsstaði 1, af Ólínu Ingibjörgu Jóhannesdóttur.
Jörðin Gunnarsstaðir 1 er spilda út frá jörðinni Gunnarsstöðum en það eru uppeldisstöðvar Steingríms J. Sigfússonar, bróður Jóhannesar.
Á milli Brúarlands og Gunnarsstaða 1 var óskipt land.
„Brúarland var einn fjórði úr óræktuðu landi Gunnarsstaða 1. Þegar Brúarland var selt, þá var afsalið kolvitlaust gert og ekki í samræmi við fyrri þinglýsingarskjöl. Þannig að ábúendur seldu einn fjórða af Gunnarsstöðum 1 – með húsum og öllu sem þeir áttu ekkert í,“ segir Jóhannes.
Hjá sýslumanni fékk Jóhannes þau svör að ekki væri hægt að breyta samþykktri þinglýsingu nema með samþykki kaupanda.
„Minn lögfræðingur sagði að þetta væri algjör handvömm hjá sýslumanni, að þinglýsa sölunni með þessum hætti, því hún var vitlaus,“ segir Jóhannes.
„Ég ætlaði að höfða riftunarmál á afsalið. Því sko, meira að segja einn fjórði af íbúðarhúsinu mínu var skyndilega talinn eign Ratcliffe. Þetta var fáránlegt,“ segir hann.
Þegar ljóst var að í hart stefndi varð, að sögn Jóhannesar, breyting á háttum Ratcliffe og fulltrúa hans.
„Það kom einhver gamall fjölskyldumeðlimur frá Ratcliffe sem vildi hitta mig og ræða þessi mál. Hann reyndist mjög almennilegur maður, svona gamall Breti. Hann segir við mig: „Svona vinnubrögð viljum við ekki sjá,“ og bað mig að setja upp lausn á málinu eins og ég felldi mig við,“ segir Jóhannes.
Úr varð að Jóhannes gerði það og varð „mjög sáttur“ við málalyktir.
„Við fórum bara og hnitmældum þetta og gengum frá okkar málum. Nú er Brúarland bara sér jörð og Gunnarsstaðir 1 sér jörð. Ég sagði við þá að ég myndi aldrei eiga neitt með þeim aftur,“ segir Jóhannes.
Jóhannes segist hafa verið hugsi yfir því að hægt hafi verið að þinglýsa sameign með þessum hætti og að honum hafi ekki gefist tími til að mótmæla neinu áður en kaupin gengu í gegn.
Að sögn Jóhannesar var það fulltrúi hjá sýslumanni sem þinglýsti skjalinu, og frétti Jóhannes ekki af sölunni fyrr en eftir á. Honum gafst því ekki tími til að mótmæla – auk þess sem hann var mjög á móti sölunni á Brúarlandi yfir höfuð.
„Ég hellti mér yfir sýslumann á sínum tíma og honum þótti þetta mjög miður og vont. Hann sá að ekki hafði verið rétt að þessari þinglýsingu staðið,“ segir Jóhannes.