Ekki fleiri aftökur í Íran í 30 ár

Nazanin Boniadi, leikkona og mannréttindaaktívisti, ræddi við mbl.is um harðstjórnina …
Nazanin Boniadi, leikkona og mannréttindaaktívisti, ræddi við mbl.is um harðstjórnina í Íran. mbl.is/Hulda Margrét

Aftökum hefur fjölgað verulega í Íran. Fjöldinn í ár er sá mesti sem verið hefur síðustu 30 ár og í Íran er þar að auki hæsta tíðni aftaka í heiminum miðað við höfðatölu.

Íranska leikkonan Nazanin Boniadi segir ekki næga alþjóðlega meðvitund og samstöðu við írönsku þjóðina og kallar eftir auknum pólitískum kostnaði fyrir Íran.

„Ástæðan fyrir þessu svari mínu er sú að alþjóðleg samstaða er ekki bara orð og ekki bara ræður á viðburðum. Heldur aukinn pólitískur kostnaður fyrir kúgun klerkastjórnarinnar á sínu eigin fólki,“ segir hún í samtali við blaðamann mbl.is.

„Manneskja í vestræna heiminum gæti hugsað: hvað hefur það með mig að gera? En ég held að Íslendingar viti jafn vel betur en flestir að kúgunin gæti mjög auðveldlega lent á okkur sjálfum og að við erum í grunninn að gefa upp lýðræðið alls staðar með því að snúa baki við fólkinu sem berst fyrir þeim lýðræðislegu gildum og frelsi sem við njótum.“

Komu Masoud Pezeshkian, forseta Íran, á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mótmælt, …
Komu Masoud Pezeshkian, forseta Íran, á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mótmælt, 23. september 2025. AFP/Stephanie Keith

Ekki af völdum utanaðkomandi afla

Boniadi segir nauðsynlegt að standa með þeim sem fórna öllu fyrir frelsi. Það eigi ekki bara við um Íran heldur einnig allan heiminn.

„Ég bið viðeigandi löggjafavald oft að velta þessu fyrir sér: stjórnin í Íran vill verða eins og Norður-Kórea og íbúarnir í Íran vilja verða eins og Suður-Kórea.

Ímyndaðu þér ef Íran verður lýðræðislega, frjálsa þjóðin sem það á skilið að vera og fólkið er að krefjast, hvað það myndi gera fyrir svæðisbundinn stöðugleika í Miðausturlöndunum og stöðugleika og frið í heiminum öllum,“ segir leikkonan.

„Þegar allt kemur til alls viljum við öll frið í heiminum. Þess vegna er ég hérna, til að halda röddum íranska fólksins á lífi,“ segir hún enn fremur. Mikið af þeirri grimmd sem eigi sér stað í heiminum núna sé af völdum utanaðkomandi afla en ríkisstjórn Íran sé að kúga sitt eigið fólk.

„Ég held að fólk veiti því ekki athygli vegna þess að það sér það ekki sem utanaðkomandi afl að valda grimmdarverkunum.“

Aftökur aukist verulega á milli ára

Boniadi bendir á að tíðni aftaka í Íran hafi aukist verulega á milli ára.

Tíðnin í ár sé sú hæsta sem verið hefur síðustu 30 ár og þar að auki sé landið með hæstu tíðni aftaka miðað við höfðatölu í heiminum.

Árið 2024 bar Íran ábyrgð á 64% af aftökum á heimsvísu. Í ár er harðstjórnin þegar komin fram úr því hlutfalli en miðað við tölur frá 30. september hafa yfir 1.000 manns verið teknir af lífi í fangelsum landsins.

Nýjum lögum var nýlega komið á í Íran sem gera klerkastjórninni kleift að yfirlýsa alla þá sem gagnrýna stjórnina eða mótmæla henni njósnara fyrir óvinaríki.

Þannig segir Boniadi liggja á að pólitískur kostnaður Íran fyrir pólitíska kúgun sé aukinn.

Boniadi segir ný lög í Íran gera klerkastjórninni kleift að …
Boniadi segir ný lög í Íran gera klerkastjórninni kleift að yfirlýsa alla þá sem gagnrýna stjórnina eða mótmæla henni njósnara fyrir óvinaríki. mbl.is/Hulda Margrét

„Þeir halda sér við völd með því að halda hálfri þjóðinni aftur“

Aðspurð segir Boniadi mikilvægt að upphefja raddir allra Írana, ekki bara kvenna, en réttindi kvenna séu rótin og að vinna þau aftur sé í hag allrar þjóðarinnar.

„Klerkastjórnin lifir af með því að ofsækja konur og þeir halda sér við völd með því að halda hálfri þjóðinni aftur,“ segir Boniadi.

Ein af stoðum kerfisins sé skyldubundinn hijab og aðskilnaður kvenna á marga vegu.

„Ef við vinnum aftur réttindi kvenna þá tökum við í rauninni þessa stoð kerfisins í burtu og kerfið molnar. Þess vegna er mikilvægt að leggja áherslu á kvenréttindi en ekki vanrækja írönsku þjóðina sem heild,“ segir leik- og baráttukonan að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert