Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu til að greiða 40.000 krónur fyrir flutningsþjónustu en konan fór fram á sýknu þar sem hún taldi að um vinargreiða hefði verið að ræða og án endurgjalds.
Héraðsdómur segir að í ljósi gagna málsins og framburða aðila fyrir dómi hafi talist ósannað að maður, sem var eigandi fyrirtækis sem sinnti flutningsþjónustu, hafi lofað konunni endurgjaldslausri aðstoð við flutninga en hins vegar þótti sannað að hann hefði lofað henni afslætti.
Því var konunni dæmdur afsláttur úr hendi fyrirtækisins að álitum og henni gert að greiða tæplega helming þeirrar fjárhæðar sem útgefinn reikningur hljóðaði á um.
Flutningsþjónustunni var aftur á móti gert að greiða konunni 380.000 kr. málskostnað.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 1. október, að konan og maðurinn hafi unnið á sama vinnustað. Hún sagði við manninn að hún þyrfti að flytja búslóð í kjölfar sambúðarslita og hann aðstoðaði hana við flutningana í júní í fyrra. Atvik málsins eru að öðru leyti umdeild að sögn héraðsdóms.
Maðurinn hélt því fram að konan hefði óskað eftir þjónustu hans og hann orðið við því en hún hefði hins vegar ekki staðið skil á greiðslu reiknings vegna þjónustunnar.
Konan lýsti atvikum á hinn bóginn svo að hún hefði hitt manninn í vöruhúsi starfstöðvarinnar þar sem þau unnu og sagt honum að hún væri að leita að aðstoð við flutninga en að hún ætti erfitt með að greiða fullt verð fyrir. Maðurinn hefði boðið fram aðstoð sína og þar sem vel hefði farið á með þeim, og hún sérstaklega nefnt að hún ætti ekki pening, hefði hún tekið boði hans svo að um persónulegan vinargreiða væri að ræða.
Þótt ekki hefði verið rætt um greiðslu þá hefði konan boðist til að greiða 40.000 krónur en maðurinn talið það óþarft. Konan hefði síðan fengið sendan reikning 9. júlí 2024 og í kjölfarið frætt málið við manninn. Fram kemur að hann hefði orðið vandræðalegur og lýst því að honum hefði láðst að fá samþykki sambúðarkonu sinnar sem sæi um bókhald fyrirtækisins. Hann hefði þó lofað að reikningurinn yrði lagfærður og konan skyldi greiða um 40.000 krónur miðað við 60% afslátt, en upphaflegur reikningur hljóðaði upp á 96.224 kr.
Tveimur dögum eftir að reikningurinn var sendur konunni, eða 11. júlí 2024, sendi maðurinn eftirfarandi skilaboð til stefndu: „Ég er rotin lygari“. Konan mun þá hafa spurt: „hvað áttu við með því?“ og maðurinn svaraði ,,Hverju?“.
Sama dag sendi konan manninum skilaboð þar sem hún gagnrýndi það að bókari fyrirtækisins hefði ekki sent sundurliðaðan reikning og óskaði eftir að maðurinn sendi slíkan reikning strax eða eyddi reikningnum út af heimabanka hennar. Þá óskaði hún eftir nýjum reikningi með 60% afslætti eins og þau hefðu talað um.
Þeim skilaboðum svaraði maðurinn með eftirfarandi hætti: „Heyrðu vinan róaðu þig og nei krafan fer ekki út hún sendir nótuna á eftir. Og ég mismælti mig þegar ég sagði 60% afsláttur það er 20% afsláttur á þessu þetta voru rúmir 5 tímar ekki hélstu að þú fengir flutninginn gefins?“.
Þá lýsti hann því að startgjaldið væri 23.000 krónur og að hver klukkustund eftir það kostaði 14.000 krónur.
Héraðsdómur segir að í málinu sé hvorki fyrir að fara samningi né öðru skjallegu sönnunargagni sem varpað geti ljósi á upphafleg samskipti aðila. Óumdeilt virðist þó af gögnum málsins og framburðum fyrir dómi að komist hafi á munnlegt samkomulag milli konunnar og mannsins um að hann aðstoðaði hana við flutninga.
Við mat á því hvort telja verði sannað að komist hafi á samkomulag um að þjónustan yrði endurgjaldslaus er til þess að líta í fyrsta lagi að stefnda kveðst sjálf hafa boðið manninum 40.000 krónur í þóknun og kvað hún það boð hafa tekið mið af auglýsingu mannsins á Facebook.
Í öðru lagi verði skýrlega ráðið af gögnum málsins, svo og framburði konunnar fyrir dómi, að hún hafi gert ráð fyrir að borga a.m.k. eitthvað fyrir þjónustuna, þótt hún hafi mótmælt útgefnum reikningi eins og hann leit út. Verða samskiptin við manninn og bókarann, þar sem konan óskaði ítrekað eftir nýjum reikningi og frekari sundurliðun, enda ekki túlkuð öðruvísi en svo að hún hafi reiknað með að greiða eitthvað fyrir þjónustuna.
Með sömu rökum verði ekki fallist á þá málsástæðu konunnar að ekkert samningssamband hafi verið til staðar við fyrirtækið, en fyrir liggur að samkomulag komst á með konunni og manninum, sem ók bifreið flutningsþjónustunnar og staðfesti konan fyrir dómi að bíll merktur þjónustunni hafi verið notaður við flutningana.
Að mati dómsins er hins vegar sannað, með fyrirliggjandi gögnum og framburði konunnar, að maðurinn hafi, er hann samþykkti að aðstoða hana, látið í ljós að henni yrði ekki gert að greiða fullt verð fyrir þjónustuna. Vísast í því sambandi til skilaboða mannsins til konunnar þar sem hann kvaðst hafa mismælt sig er hann talaði um 60% afslátt svo og þeirra viðbragða hans að segja „minnsta mál“ þegar konan þakkaði honum fyrir aðstoðina daginn fyrir flutningana.
Þá segir héraðsdómur að skilaboðin sem maðurinn sendi konunni eftir að sambýliskona hans sendi hinn umdeilda reikning, þar sem hann kvaðst vera lygari, séu til þess fallin að mati dómsins að styðja framburð konunnar um að reikningurinn hafi ekki samrýmst því sem maðurinn hafði lofað konunni og hún mátti reikna með. Er í því tilliti á það bent að dómurinn metur framburð mannsins fyrir dómi, þar sem hann kannaðist í engu við að hafa sent skilaboð sem borin voru undir hann, afar ótrúverðugan á meðan framburður konunnar samrýmdist betur gögnum málsins.
Verður samkvæmt því lagt til grundvallar að maðurinn hafi, í viðræðum við konuna um hina veittu þjónustu, viljað aðstoða hana og a.m.k. gefa afslátt.
Að mati dómsins fær framburður gjaldkerans engu breytt um framangreinda niðurstöðu, en skoða verði framburð hennar með hliðsjón af því að hún er sambýliskona mannsins og hafði að því er virðist enga aðkomu að viðræðum aðila.
Með hliðsjón af öllu framangreindu, og þar sem ósannað er að konunni hafi verið lofað að fá þjónustuna endurgjaldslaust, þykir rétt að meta hæfilegt endurgjald fyrir þjónustuna 40.000 krónur að álitum.