Eldar loga inn í nóttina á Siglufirði

Eldur logar í Primex-verksmiðjunni á Siglufirði.
Eldur logar í Primex-verksmiðjunni á Siglufirði. mbl.is/Sigurður Ægisson

Búist er við að slökkvistarfi við Primex-verksmiðjuna á Siglufirði haldi áfram inn í nóttina, að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar. 

Hann segir slökkvistarf hafa gengið vel þó enn sé töluvert verk fyrir höndum.

Eldurinn er staðbundinn við þak verksmiðjunnar. Jóhann segir húsið vera vel byggt þar sem mörg brunahólf eru í húsnæðinu. 

Tilkynning um eldinn barst um klukkan 20 í kvöld. Slökkvilið Fjallabyggðar nýtur liðsinnis frá slökkviliðinu á Dalvík og frá Akureyri. 

„Við höfum aðeins náð að vinna á þessu en það eru einhverjir klukkutímar eftir,“ segir Jóhann. 

Ekki hægt að segja til um áhrifin

Primex er íslenskt líftæknifyrirtæki sem framleiðir meðal annars snyrtivörur og sáravörur undir merkinu ChitoCare. 

Sigríður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi ChitoCare, segir ekki hægt að segja til um hvaða áhrif eldurinn komi til með að hafa á starfsemi fyrirtækisins. Það verði ekki ljóst fyrr en slökkvistarfi lýkur. 

Skera í þakið

Eins og fyrr segir logar eldurinn í þaki húsnæðisins. Jóhann segir aðkomuna að eldinum og miklar vindhviður gera slökkvistarf erfiðara. Slökkvistarf hefur verið unnið utan frá og hefur enginn reykkafari verið sendur inn.

Slökkviliðsmenn hafa skorið í þakið og koma vatni þannig inn. 

Talið er að verksmiðjan hafi verið mannlaus þegar eldurinn kom upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert