Eldur á Siglufirði

Eldur logar í Primex-verksmiðjunni á Siglufirði.
Eldur logar í Primex-verksmiðjunni á Siglufirði. Ljósmynd/Aðsend

Eldur logar í Primex-verksmiðjunni á Siglufirði. Slökkvistarf stendur á fullu yfir. Slökkvilið Fjallabyggðar nýtur aðstoðar frá slökkviliðinu á Dalvík auk þess sem liðsauki er á leið á vettvang frá Akureyri. 

Þetta segir Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, í samtali við mbl.is. Hann segir eldinn staðbundinn í þaki húsnæðisins og slökkvistarf því unnið ofan frá sem reynist erfitt. 

Eldurinn kom upp rétt eftir klukkan 20 í kvöld. Jón Ingi Sveinbjörnsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir að engar tilkynningar hafi borist um slys á fólki.

Talið er að verksmiðjan hafi verið mannlaus þegar eldurinn kom upp.

Aðspurður segir Jón Ingi að aðstæður á vettvangi séu góðar. Hann segir ekki útlit fyrir að eldurinn berist í nærliggjandi hús. 

Primex er íslenskt líftæknifyrirtæki sem framleiðir meðal annars snyrtivörur og sáravörur undir merkinu ChitoCare.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert