Reykjavíkurborg hyggst ekki höfða skaðabótamál eins og sakir standa á hendur verktaka sökum þess að loka þarf Vesturbæjarlaug þriðja sinni eftir að málning tók að flagna að laugarkari.
Að sögn Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptastjóra Reykjavíkurborgar, er stefnt að því að fara í ítarlega vinnu á næstunni til að komast til botns í flögnunarmálinu.
Ekkert gefi til kynna að ekki hafi verið farið eftir öllum leiðbeiningum þegar laugin var máluð.
„Það er verið að leita orsaka þess að málningin helst ekki á, en það er ekki horft til þess að einhver mistök hafi verið gerð þegar málningin var sett á,“ segir Eva Bergþóra.

