Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, ávarpaði alþjóðlega kvennaráðstefnu í Peking sem haldin er á vegum kínverskra stjórnvalda og UN Women en forsetinn er í opinberri heimsókn í Kína í boði Xi Jinping, forseta Kína.
Halla mun jafnframt eiga fund með forseta Kína. Þar gefst tækifæri til að ræða mikilvægi 30 ára hátíðarfundarins, tvíhliða samskipti ríkjanna og helstu áherslumál Íslands, m.a. á sviði loftslagsmála, mannréttinda og friðar.
Fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands að markmið ferðarinnar sé að staðfesta góð tvíhliðasamskipti ríkjanna tveggja, ræða um áframhaldandi viðskipti og samskipti þjóðanna og samstarf á sviði jarðvarma, jafnréttismála og sjálfbærrar þróunar.
Á morgun tekur forsetinn þátt í opinberum fundi í sendiráði Íslands í Peking. Höfuðefni fundarins er mikilvægi jarðvarma sem orkugjafa og samstarf Íslands og Kína. Sendiráðið, sem fagnar 30 ára afmæli á árinu, á von á um 150 fundargestum úr stjórnsýslu Kína, atvinnulífinu, háskólasamfélaginu, alþjóðastofnunum og diplómatasamfélaginu.
Í för með forsetanum eru Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, ráðherra dómsmála og jafnréttismála, Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifstofustjóri í ráðuneytinu, Sif Gunnarsdóttir forsetaritari og Þórdís Valsdóttir, upplýsingafulltrúi í ráðuneytinu.
Þess má geta að forseti Íslands hefur ekki sótt Kína heim frá því 2010 og forsætisráðherra Íslands ekki síðan 2013. Síðast sótti utanríkisráðherra Íslands Kína heim árið 2018.