„Allar þær tilfinningar sem vaknað geta meðal ungmenna á viðkvæmum þroskatíma í lífi þeirra ætti ekki að sjúkdómsvæða,“ segir Ásdís Eckardt hjúkrunarfræðingur.
„Þó ber að hafa í huga að stuðningur á þessum tíma getur haft veruleg áhrif á líðan og framtíð unglinga.
Rannsóknir og reynsla sýna að ungt fólk greinir í auknum mæli frá kvíða og vanlíðan og leitar hjálpar. Þá fjölgar þeim sem telja sig ekki geta leitað til foreldra sinna um stuðning sem er þó svo mikilvægur. Yfirleitt nær fólk þó saman um síðar.“
Inntak samskipta nemenda á árunum 2022-2024 við þá hjúkrunarfræðinga sem starfa í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu er efni rannsóknar sem Ásdís og fleiri gerðu. Niðurstöðurnar voru kynntar á vísindaráðstefnunni Hjúkrun 2025 sem haldin var á Akureyri nýlega. Umrædd þjónusta er einnig til staðar í skólum út um land, en eftir er að greina gögn úr starfi þar.
Í kynningu um erindið segir að sálræn vanlíðan og atburðir snemma á lífsleiðinni geti haft langvarandi áhrif á fullorðinsárin. Markmið þjónustu hjúkrunarfræðinga í framhaldsskólum sé að styrkja verndandi þætti geðheilbrigðis og bæta þjónustu í nærumhverfi. Snemmtæk inngrip og stuðningur á þessum árum geta komið í veg fyrir versnandi þróun. Segja má að rannsóknin hafi staðfest þörfina á að heilbrigðsþjónusta af þessum toga sé veitt, sem æ fleiri leita eftir.
„Þó heilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum sé ekki ný af nálinni, er það fyrst nú á seinni árum sem starfinu hefur verið tryggt fjármagn til að formgera hana með skipulegu starfi. Sjálf hef ég lengi starfað sem hjúkrunarfræðingur, þar sem þjónustan er lögbundin. Hafði þó alltaf áhuga á að sinna svona innan framhaldsskólanna, eins og ég hef gert síðustu árin í Kvennó og MR,“ segir Ásdís.
Hjúkrunarfræðingar starfa nú í öllum framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu, sem eru 13 talsins. Fjármögnun gerir þó aðeins ráð fyrir um 30% starfshlutfalli í hverjum þeirra. Slíkt telur Ásdís vera of lítið.
„Þjónustan er einstaklingsmiðuð og veitt innan skólanna sjálfra,“ tiltekur Ásdís. „Lögð er sérstök áhersla á geðheilbrigðisþjónustu og leiðbeiningar um hvernig nemendur geti leitað frekari aðstoðar. Boðið er upp á ráðgjöf og fræðslu varðandi ýmis heilsufarsleg málefni, svo sem geðheilbrigði, kynheilbrigði og félagslegan vanda. Auk viðtala hafa hjúkrunarfræðingarnir boðið upp á hópfræðslu fyrir nemendur, sem er sniðin að þörfum hvers skóla, þá ýmist samkvæmt greiningu eða beiðni. Þetta er jákvæð þróun en auðvitað myndum við vilja hafa tíma til að gera meira og enn betur.“
Þótt andleg líðan og geðheilbrigði séu ofarlega á baugi í samtölum ungmenna við hjúkrunarfræðinga í skólum er fleira nefnt; svo sem verkir, gömul meiðsl og langvinnur heilbrigðisvandi.
„Mikilvægasta hlutverkið er að vera til staðar – hlusta, mynda traust og veita stuðning. Við vinnum náið með heilsugæslunni og vísum nemendum áfram til lækna, sálfræðinga og næringarráðgjafa eftir þörfum. Einnig er lögð áhersla á samvinnu við aðra stoðþjónustu, þar sem fagfólk gegnir lykilhlutverki í að styðja við nemendur,“ tiltekur viðmælandi og heldur áfram:
„Við erum bundin trúnaði samkvæmt heilbrigðislögum og vinnum í nánu samstarfi við nemandann að því að finna heppileg næstu skref. Markmiðið er að tryggja að nemendur fái aðgang að réttum úrræðum, sem getur dregið úr óþarfa kostnaði og minnkað mannlega þjáningu. Þar sem biðtími eftir þjónustu sem þarf er stundum langur höldum við áfram að fylgjast með og veita stuðning á meðan þarf. Slíkt er mjög mikilvægt.“
Samtöl hjúkrunarfræðinga við nemendur framhaldsskólanna á því tímabili sem rannsóknin náði til voru í ¾ tilvika við stúlkur en ¼ við drengi. Þetta segir Ásdís gefa tilefni til að skoða hvernig hægt sé að koma betur til móts við strákana og kynna þeim þjónustuna, hver sem vandamálin kunni að vera.
„Takmörkuð viðvera okkar hjúkrunarfræðinga, það er aðeins þriðjungur úr starfi í hverjum skóla, dregur úr möguleikum á samfelldum stuðningi við nemendur eins og þyrfti að vera. Sýnileiki er lykilatriði þegar mynda á traust, sem er ein af forsendum þess að nemendur leiti sér aðstoðar vegna vanlíðanar. Ef þróunin í fjölda samskipta heldur áfram á sama veg þarf vissulega að mæta því. Slíkt undirstrikar mikilvægi þess að tryggja fullnægjandi aðgengi og auka viðveru hjúkrunarfræðinga í framhaldsskólum. Það væri ósk mín að geta starfað í 100% stöðu og verið til staðar alla skóladaga til að veita nemendum þann stuðning sem þau þurfa og eiga skilið. Svo verð ég líka að segja að mér finnst ég ótrúlega heppin að koma að þróun þessa mikilvæga starfs innan skólanna þar sem ég hef kynnst svo mörgun frábærum krökkum,“ segir Ásdís Eckardt að síðustu.
Hver er hún?
Ásdís Eckardt er fædd 1980 og uppalin í miðbæ Reykjavíkur. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og með meistaragráðu í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri.
Ásdís hefur starfað við heilsuvernd grunnskólabarna frá árinu 2008 hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Árið 2022 flutti hún sig yfir í framhaldsskólana. Ásdís er einnig fulltrúi í stjórn fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
