„Höfum ekki upplifað samráð“

„Það sem kemur okkur mest á óvart í þessu frumvarpi, er það sem snýr að mjólkinni. Að taka út 71. greinina í mjólkinni, þar sem afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að hafa með sér samstarf og samvinnu um verkaskiptingu og annað. Það kom okkur mjög spánskt fyrir sjónir vegna þess að það hefur ekki verið nokkurt einasta ákall eftir því. Enginn verið að rífast um það síðustu árin. Þess vegna kom það okkur mjög á óvart,“ segir Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna í Dagmálaþætti dagsins á mbl.is.

Trausti ræðir í þættinum þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum í frumvarpi atvinnuvegaráðherra varðandi breytingu á búvörulögum. Trausti segist undrandi á þessari breytingu sem lýtur að niðurfellingu 71. greinarinnar. Það hafi ekki verið rætt við bændur og birtist án nokkurs fyrirvara.

„Eins og frumvarpsdrögin eru skrifuð í dag þá þýðir það að Auðhumla er ekki lengur í þeirri stöðu að safna allri mjólk fyrir alla bændur á Íslandi fyrir allar afurðastöðvar á Íslandi. Þá þurfa þessir minni aðilar eins og Arna á Bolungarvík, Bíóbú og KS á Sauðárkróki að setja upp söfnunarkerfi aftur sjálfir.

Það verður bara dýrt. Það er bara dýrt fyrir almenning. Það er kostnaðarauki á búgreinina. Það verður dýrara fyrir bændur að koma mjólkinni til vinnslu. Það verður dýrara fyrir neytendur að kaupa mjólkurvörur vegna þess að það er búið að hækka kostnað á vinnslunni. Þannig að þetta er ekki klókt. Þetta er ekki klókt, hvorki fyrir bændur né neytendur að gera þetta,“ segir Trausti. Hann bendir á að Auðhumla skaffi þessum fyrirtækjum mjólkina á sanngjörnu verði og félagið sé skuldbundið til að gera það. Auðhumla er samvinnufélag í eigu um fimm hundruð mjólkurframleiðenda.

Hvað sagði ráðherra þegar þú spurðir út í þetta?

„Þetta er allt til skoðunar, eru þau svör sem við fáum. Þetta er til samráðs og við skoðum þetta. Við bara vinnum með það,“ svarar Trausti.

„Laumað eða troðið inn“

Hafið þið upplifað samráð í þessu?

„Sko. Ég held að það sé ekki hægt að segja að við höfum upplifað samráð í þessu.“ Trausti bendir á að það hafi ekki verið lagt fram áformaskjal eins og tíðkist á Alþingi í dag. Þá sé byrjað á að leggja fram slíkt skjal og allir hlutaðeigandi fái að vita hvað stendur til. Það leiði svo til þess að samtal geti hafist við hagsmunaaðila áður en frumvarp fer inn í samráðsgátt. Hann bætir við, „Við erum ekki að tala um að við hefðum átt að skrifa frumvarpið. Bara að það sé talað við okkur. Sér í lagi um þessa breytingu gagnvart mjólkinni. Það var ekki gert. Það kom okkur spánskt fyrir sjónir að því skyldi svona vera laumað eða troðið inn í þessi nýju búvörulög sem þau eru að leggja fram.“

Trausti segir að bændur hafi alveg vitað af yfirvofandi breytingum varðandi afurðastöðvar í kjöti en breytingarnar í mjólkinni kom öllum á óvart. Hann tekur fram að Bændasamtökin hafi verið mjög tilbúin til samtals og samvinnu við ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur.

Ekki farið vel með tækifærin

„Við erum að eiga samtal núna við þessa ríkisstjórn um stuðningskerfi landbúnaðarins. Búvörusamningar eru lausir frá áramótum 2026 – 27. Þá á nýtt kerfi að taka við. Við erum búin að eiga fundi. Við erum búin að eiga samtöl. Við fórum hringferð í kringum landið með ráðherra síðastliðið vor. Við erum búin að leggja mikið á okkur til þess að halda samskiptunum í góðu lagi og við höfum ekki fengið neitt annað en gott á móti og ég hrósa þeim fyrir það.

Þetta atriði sem snýr að mjólkinni hefur aldrei komið fram í neinum samtölum við okkur. Það eru búin að vera mörg tækifæri til þess og við höfum litið svo á  að þegar við erum búin að hefja þessa vinnu við uppfærslu núgildandi búvörusamninga þá séu starfsskilyrði landbúnaðarins öll undir. Þannig að tækifærin til að eiga þetta samtal við okkur um það sem snýr að mjólkinni hafa verið ótal ótal mörg. Það hefur bara ekki verið farið vel með það.“

Frumvarpsdrögin að breyttum búvörulögum eru í samráðsgátt stjórnvalda fram á föstudag.

Eins og fyrr segir er Trausti Hjálmarsson gestur Dagmála í dag og ræðir þar þær breytingar sem fyrirhugaðar eru með lagabreytingum. 

Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast þáttinn í heild sinni með því að smella á linkinn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert