Rúmmál kvikunnar sem safnast hefur fyrir undir Svartsengi er nú komið yfir þau mörk sem það náði áður en síðasta eldgos hófst. Aukin skjálftavirkni á Reykjanesskaga um helgina gæti gefið til kynna að næsta gos sé í aðsigi.
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands.
Benedikt segir að hægt hafi smám saman á landrisinu. Sú þróun hafi staðið yfir frá því að síðasta gosi lauk.
„Aftur á móti er landrisið núna – eða rúmmál kvikunnar – komið yfir þau mörk sem það var fyrir síðasta gos. Það er þó ekki komið upp fyrir það sem var fyrir þarsíðasta gos, því það gaus náttúrulega frekar snemma síðast,“ segir Benedikt.
„Við kannski vitum ekki alveg hvort það þýði að það sé komin einhver nýr þröskuldur eða hvernig það hagar sér.“
Greint hefur verið frá því að þegar um 12 milljónir rúmmetra hafi safnast saman aukist líkurnar á nýju gosi, en það var einmitt það magn kviku sem streymdi úr kvikusöfnunarsvæðinu í síðasta gosi.
„Það hefur verið tiltölulega rólegt í skjálftavirkni þangað til bara nú um helgina, það kom smá svona hiksti. Það gæti verið merki um að þetta sé að nálgast sé einhver mörk, án þess þó að við getum fullyrt það,“ segir Benedikt að lokum.

