Langt síðan menntskælingar gleymdu Jónasi

Ritdeilur spunnust milli íslenskukennara MR og greinarhöfundar vegna málsins.
Ritdeilur spunnust milli íslenskukennara MR og greinarhöfundar vegna málsins. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hann er Ísland,“ sagði Halldór Laxness á sínum tíma um Jónas Hallgrímsson en svipuð örlög virðast blasa við skáldunum tveimur í framhaldsskólum landsins. Ólafur Rastrick, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, segir að umræða undanfarna daga lýsi því að landsmenn hafi áhyggjur af samfélagslegu rofi.

Síðustu daga hefur mikil umræða spunnist í samfélaginu eftir að Morgunblaðið greindi frá því að innan við þriðjungur framhaldsskólanema lesi bók eftir Laxness sem hluta af skylduáfanga á skólagöngu sinni.

Þá virðast menntskælingar almennt hafa takmarkaða þekkingu á Laxness, sem af mörgum var talinn síðasta þjóðskáld norðursins, en nemendur sem Morgunblaðið ræddi við fyrir helgi gátu fæstir nefnt skáldsögu eftir hann og sumir rugluðu honum við Laxdælu.

Margir hafa lýst hneykslan sinni á því að Laxness sé á útleið af leslistum framhaldsskólanna, tala um uppgjöf á versta tíma og sitthvað fleira.

Vita margir hverjir ekki neitt 

Þetta er ekki fyrsta sinn sem fjallað hefur verið um þekkingu, eða ef til vill vanþekkingu, menntskælinga á lykilkarakterum bókmenntasögu þjóðarinnar en árið 1992 vakti forsíðugrein sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um vanþekkingu nemenda á Jónasi Hallgrímssyni töluverða athygli.

Jón Kalman Stefánsson var höfundur greinarinnar sem bar yfirskriftina Hver er þessi Jónas? - Hugleiðingar um skáldið eina og afstöðu ungs fólks nú á dögum og hófst á orðunum:

„Ekkert skáld Íslandssögunnar hefur verið sett á jafn háan stall og Jónas Hallgrímsson; ef minnst er á ástmög þjóðarinnar eiga allir að vita við hvern er átt. En sá Jónas sem nú trónir yfir okkur hinum er varla mikið meira en fjarskyldur alnafna sínum er fæddist í Öxnadal 16. nóvember 1807 og lést með brotinn legg tæpum 28 árum síðar í Kaupmannahöfn.

Hver er þessi Jónas? Hann er Ísland, segir Halldór Laxness en nemendur í framhaldsskólum landsins vita margir hverjir ekki neitt um hann. Jónas er einn af sjálfstæðishetjum síðustu aldar. Hann var náttúrufræðingur, skáld og einn af Fjölnismönnunum; en orti Jónas Passíusálmana, og lést hann í bílslysi?“

Forsíða sunnudagsblaðs Morgunblaðsins þar sem fjallað var um stöðu Jónasar …
Forsíða sunnudagsblaðs Morgunblaðsins þar sem fjallað var um stöðu Jónasar í framhaldsskólum.

49% vissu lítið sem ekkert

Við vinnslu greinarinnar lagði Jón Kalman könnun fyrir 222 framhaldsskólanema í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Vesturlands, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Menntaskólanum í Reykjavík.

Í henni spurði hann þriggja spurninga: Hvenær var Jónas Hallgrímsson uppi? Hvers konar náungi var hann? og Getur þú bent á eitthvað sem liggur eftir hann?

Í ljós kom að flestir nemendurnir vissu lítið sem ekkert um skáldið og var þekkingarmunur meðal framhaldsskólanna lítill. „Helst að nemendur FS hafi komið illa út,“ segir í greininni.

Af nemendunum voru 58, eða rúm 26%, sem gátu nefnt eitt eða fleiri ljóð eftir Jónas og bent á að hann hafi verið einn af Fjölnismönnum. Þá gerðu 49% nemendanna sér litla sem enga grein fyrir því hver Jónas var.

Einhverjir héldu að hann hefði verið biskup, aðrir að hann hefði dáið í bílslysi og enn aðrir að hann hafi ort Eddukvæðin.

Ritdeilur á síðum Moggans

Þessi samantekt þekkingar nemenda á listskáldinu vakti talsverða athygli og var nokkuð umdeild.

Upp úr henni spratt meðal annars ritdeila greinarhöfundar við Ólaf Oddsson, íslenskukennara við MR, á síðum Morgunblaðsins en sá síðarnefndi setti til að mynda út á spurningarnar sem lagðar voru fyrir nemendur og þá staðreynd að greinin hafi verið myndskreytt með mynd af nemendum MR.

Eitthvað virðist þó áherslan á Jónas hafa aukist í MR upp úr þessu því þegar Morgunblaðið stóð fyrir því að könnunin væri endurtekin 15 árum síðar kom MR betur út en aðrir skólar.

Hluti greinar Ólafs Oddsonar um grein Jóns Kalmans.
Hluti greinar Ólafs Oddsonar um grein Jóns Kalmans.

Af hverju snerta skáldin streng?

En hvað veldur því að greinar sem þessar þar sem fjallað er um stöðu stöku skálda innan menntaskólanna, hvort sem það er Laxness eða Jónas, vekja svona mikla athygli og umtal?

Það eru til að mynda ekki nýjar upplýsingar um að lesskilningur og orðaforði fari dvínandi í skólakerfinu en samt virðast einhverjir hissa á því að Laxness sé á útleið af leslistum framhaldsskóla.

Myndin af nemendunum fyrir utan MR vakti hneyslan sumra.
Myndin af nemendunum fyrir utan MR vakti hneyslan sumra.

Hvað er þá íslenskt samfélag? 

Í samtali við mbl.is segir Ólafur Rastrick, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, að fólk tengi ef til vill við áþreifanlegri dæmi um ákveðna þróun sem eigi sér stað.

„Ef fólk er til dæmis hætt að lesa Laxness, þá verður einhver hugmynd um einhvers konar samfélagslegt rof, að við séum bara að glata hver við erum og hvaðan við komum,“ segir Ólafur og bætir við:

„Fólk hefur áhyggjur af því að það sem að íslenskt samfélag á sameiginlegt hverfi. Ef íslenskir þættir í íslenskri menningu eru bara að hverfa þá eigum við kannski ekkert sameiginlegt meira. Íslensk tunga er í hættu, þekking á sögunni, þekking á íslenskum bókmenntum. Það er tilfinning um að það sé samfélagslegt rof þarna og við eigum ekkert sameiginlegt og hvað er þá íslenskt samfélag?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert