„Við megum ekki missa tengingu og skilning á því hvar verðmætin verða til. Að almennur skilningur sé á slíku er afar mikilvægt svo mikilvæg verkefni við atvinnusköpun og fjárfestingar njóti skilnings og raungerist,“ segir Orri Hauksson, stjórnarformaður First Water hf.
Eins og sagði frá hér í Morgunblaðinu á dögunum urðu nýlega þau tímamót í starfsemi fyrirtækisins að úr eldisstöðinni við Þorlákshöfn fór fyrsta sendingin af 5 kg laxi.
Það er afurð sem sérstök áhersla verður lögð á að framleiða enda er hún eftirsótt og vel greitt fyrir hana á mörkuðum til dæmis í Bandaríkjunum og löndum Suður-Evrópu.
Starfsemi First Water byggist nú upp í hægum en öruggum skrefum. Í stöðinni fyrir austan fjall hafa verið reistir átta 25 metra breiðir eldistankar og fjórir þeirra eru komnir í fulla notkun. Þetta er hluti af 1. áfanga stöðvarinnar, en með honum verður framleiðslugetan 10.000 tonn af slægðum laxi árlega. Svo mun bætast við framleiðsluna með hverjum áfanga, en þeir verða alls sex talsins. Framkvæmdum á að vera lokið árið 2031 og þá verða tankarnir orðnir 150.
Áætlanir gera ráð fyrir að árið 2032 fari frá First Water alls 60 þúsund tonn af laxi árlega á markað og þá er fullri framleiðslu náð.
Orri Hauksson á að baki fjölbreyttan feril í atvinnulífinu, hvar hann hefur yfirleitt verið í leiðandi hlutverki; s.s. aðstoðamaður forsætisráðherra fyrr á tíð, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og forstjóri Símans um árabil. Fyrr á þessu ári kom hann svo inn í starfsemi First Water; er þar hluthafi auk þess að gegna stjórnarformennsku.
„Snemma á þessu ári var mér boðin þátttaka í þessu verkefni og í fyrstu hafði ég efasemdir. En með kynningu heillaðist ég af verkefninu og þeim áætlunum sem unnið er samkvæmt. Hér er verið að byggja upp hátæknivæddan matvælaiðnað þar sem hugsað er fyrir öllum smáatriðum, svo sem í umhverfismálum og tækni. Með því og svo ítarlegum markaðsrannsóknum er lagður sá grunnur að starfseminni sem þarf. Hér er svo miklu meira í hendi en bara góð orð um bjartsýni eins og mörg verkefnin virðast byggjast á,“ segir Orri og heldur áfram:
„Sérstaða First Water byggist annars á hátækninálgun, áherslu á heilbrigði laxins og hreinleika. Jarðsjórinn, sem síast í gegnum hraunbreiðuna hér í nágrenni Þorlákshafnar er einstaklega tær þegar við tökum hann inn í eldistankana úr 60 metra djúpum borholum. Við hreinsum hann svo að notkun lokinni og skilum honum aftur hreinni út en hann var tekinn. Úrgangurinn frá fiskunum verður eftir í kerjum og er unninn í áburð og kannski aðrar afurðir síðar. Þannig verður til sjálfbær hringrás.“
Að starfsemi First Water verði komin í full afköst eftir sjö ár segir stjórnarformaður að byggist eðlilega á því að fjármögnun lukkist, eins og gerst hefur hingað til. Heildarkostnaður við uppbyggingu eldisstöðvarinnar og þess sem þarf sé 140 milljarðar kr. Nú þegar séu í hendi 165 millj. evra í hlutafé og 80 millj. evra í skuldum eða lánsfé. Fjármögnun í svona verkefnum sé alltaf brekka til að byrja með, en svo léttist gangan. Aukið hlutafé verði tekið inn á næstu misserum og nú sé starfsemin raunar farin að skila nokkrum tekjum.
„Þegar fyrstu fasarnir eru komnir fara þeir að borga með sér. Svo er bara spurning hve hratt allt gerist í framhaldinu. Mikilvægt er að við náum sem fyrst því þrepi að framleiðsla, sala, útgjöld og tekjur verði í samhengi svo áætlanir gangi upp,“ tiltekur Orri.
Bandaríkin eru og verða stór markaður hjá First Water. Kjötneysla er ríkjandi matarhefð vestra, samanber hina óendanlega breiðu akra og landbúnaðarsvæði sem eru svo víða þar í landi. En fiskurinn kemur sífellt sterkari inn. Í dag er innflutningur Bandaríkjamanna á laxi í hverjum mánuði um 60.000 tonn og fer vaxandi. Lax sem þarf í sushi-rétti er þar stór breyta.
„Framleiðslan hjá First Water er bara eins og dropi í hafið þegar litið er til þess hvað markaðurinn fyrir eldisafurðir úr laxi stór; hvort sem litið er vestur um haf, til Evrópu eða Asíu. Við sjáum til dæmis að á mörkuðum á Spáni og Ítalíu er mikið spurt um lax, enda er þar rík hefð fyrir fiskneyslu. Þarna hafa til dæmis lengi verið helstu markaðirnir fyrir íslenskan saltfisk,“ segir Orri. Hann telur því, öllum greiningum samkvæmt, að mikils megi vænta af fiskeldinu á Íslandi í næstu framtíð. Má í því sambandi nefna að hjá Eimskip er unnið samkvæmt þeirri sviðsmynd að útflutningur á laxi frá Íslandi verði 200.000 tonn innan sjö ára. Er slíkt þó aðeins varfærin útgáfa af því sem vænst er. Til samanburðar þarna má tiltaka að þorskkvóti Íslendinga á yfirstandandi fiskveiðiári er 160.000 tonn.
Fram kom í máli Jóns Ólafs Halldórssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins, í þættinum Silfrinu á RÚV í síðustu viku að svo vel eigi að vera þurfi að auka útflutning Íslendinga um 100 milljarða kr. á ári næstu 10 árin. Slíkt sé í raun forsenda þess að halda megi uppi því samfélagsmódeli sem er á Íslandi í dag.
„Fiskeldið verður gott innlegg þarna, en þegar First Water er komið í fulla starfsemi verða tekjurnar 70-80 ma. kr. á ári. Þetta er mikilvægt og raunar er landeldi á fiski svar við svo mörgu sem gerð er krafa um í dag. Þar má nefna sjálfbærni, notkun á endurnýjanlegri orku, rekjanleika á framleiðslu, heilnæmar afurðir og svo mætti áfram telja. Og svo má nefna að í starfsemi First Water kemur gervigreindin víða inn, svo sem í útreikningum á vaxtarhraða miðað við forsendur í líffræði, á mörkuðum og víðar. Hér þarf allt að haldast í hendur og nú fást á örfáum nanósekúndum mikilvægir útreikningar sem áður tók langar stundir að fá. Við erum því á svo marga lund í þessari starfsemi á öldufaldi nýrra tíma og viðhorfa. En svo vel takist til, þarf í þessu verkefni eins og öðrum að lesa stöðuna, sjá hvernig landið liggur og hver tilhneiging tímans er. Svo er bara að grípa tækifærin.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
