Margrét Kristín Blöndal, baráttu- og tónlistakona, segir sig og aðra sem voru um borð í Frelsisflotanum hafa mátt þola ómannúðlega meðferð í ísraelsku fangelsi. Hún segir liðsmönnum flotans hafa verið neitað að fara á salernið, þau verið látin krjúpa með hendur teygðar í lengri tíma auk þess sem hita- og kuldablæstri hafi verið beitt til að brjóta fólk niður.
Þetta kemur fram í viðtali við Margréti á Vísi.
Margrét, eða Magga Stína eins og hún er gjarnan kölluð, var í haldi ísraelskra yfirvalda í tvo daga eftir að hafa verið handtekin af Ísraelsher. Hún sigldi með skipinu Conscience í áttina að Gasasvæðinu með hjálpargögn.
Magga lýsir því að þegar skipið nálgaðist svæðið þar sem önnur skip höfðu verið yfirtekin af ísraelska sjóhernum hafi þyrlur, herskip, drónar og bátar umkringt skipið.
Í kjölfarið hafi neðra þilfarið fyllst af þungvopnuðum hermönnum með vélbyssur, sprengjur, kylfur, myndavélar, infrarauðljós og hjálma sem skipuðu skipverjunum fyrir og var hópnum skipt upp.
Þegar skipið var komið í höfn við strendur Ísraels hafi hópurinn verið leiddur út en ekki hafi verið í boði að horfa annað en beint fram fyrir sig.
„Þeir keyra okkur niður í götuna og svo er maður dreginn að porti upp við hafnarlögreglustöðina, eða þessa herstöð, og þar erum við keyrð niður í götuna og látin krjúpa á hnjánum,“ segir Magga og lýsir því að eftir einhvern tíma í sömu stellingu hafi hendurnar byrjað að dofna og hnén muldu í sundur.
Þá lýsir Magga Stína því að eftir yfirheyrslu hafi hún verið leidd inn í lítinn klefa þar sem bundið var fyrir augun á henni og hún handjárnuð. Í kjölfarið hafi hermaður tekið af henni peysuna án útskýringa.
Lýsir Magga því að í kjölfarið hafi verið settur á frostkuldi í loftræstikerfinu og stóð það yfir í langan tíma. Var hún síðar færð yfir í annan fangaklefa þar sem hitinn í loftræstikerfinu var settur á fullt.
Segir Magga jafnframt að fólki hafi verið meinað að fara á salernið og neyddust sumir til að pissa á sig. Magga Stína lýsir því að margir samfangar hennar hafi orðið veikir í fangelsinu þar sem fólk hafi kastað upp og ekki fengið neina aðstoð frá ísraelsku hermönnunum.
Magga segir þó að af öllu sem hún sá í fangelsinu sé meðferðin á Isaline Corse, 84 ára franskri blaðakonu sem glímir við heilsubrest, henni ofarlega í huga.
Corse varð veik í fangelsinu og var tekin af hermönnunum sem hugðust fara með hana á sjúkrahús. Magga segir að þegar hún snéri aftur hafi ástandið á henni verið afleitt. Segir Magga að Corse hafi verið barin og misþyrmt auk þess sem henni hafi verið neitað um lyf.
Magga Stína segir meðferðina á sér og skipverjum sínum hins vegar ekki hafa verið í líkingu við það sem palestínska þjóðin hafi mátt þola undanfarin ár.