„Þetta hefur verið mjög viðburðaríkt ár,“ segir Dagur B. Eggertsson alþingismaður, en hann er nú á ársþingi NATO-þingsins í Ljubljana í Slóveníu, ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni og Sigmari Guðmundssyni, en þinginu lýkur í dag.
Dagur segir árið hafa byrjað á mikilli spennu, þar sem Trump tók við embætti og ákveðin óvissa hefði skapast um framtíð NATO. „Leiðtogafundurinn í Haag í sumar þar sem Evrópuþjóðirnar sameinuðust um að auka framlög til varnarmála í álfunni hreinsaði loftið að vissu leyti þótt óvissan sé vissulega ennþá fyrir hendi í alþjóðamálunum,“ segir Dagur.
Hann segir að það sé sérstakt við þingið núna að engir bandarískir þingmenn eru viðstaddir vegna fjárlagastöðvunar í Bandaríkjunum. „Þeir eru samt virkir á þinginu, taka þátt í gegnum fjarfundabúnaði, eru með breytingartillögur við ályktanir, bjóða sig fram í embætti og fleira, þótt þeir séu ekki á staðnum.“
Hann segir að stemningin á þinginu sé góð og í gær hafi stærstu verkefni varðandi stefnumótun og skýrslur um hin aðskiljanlegustu mál verið á lokametrunum. „Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forveri minn sem formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, var að mæla fyrir skýrslu um málefni norðurslóða sem hann hefur leitt vinnuna við, sem snýst um hvað gerist þegar íshellan þiðnar. Það var mjög vel gert hjá honum og skýrslan var samþykkt einróma.“
Dagur segist finna fyrir mikilli samstöðu og verið sé að horfa til framtíðar. Áherslan hafi mikið verið á stríðið í Úkraínu og ekki síður fjölþátta ógnir í Evrópu. Hann nefnir þar m.a. lofthelgisbrot Rússa í Eistlandi, drónaflug sem stöðvaði flugumferð í Danmörku og víðar, eyðileggingu á neðansjávarköplum og fleiri aðgerðir sem falla undir fjölþátta ógnir. „Svona atburðum hefur verið að fjölga mjög mikið á undanförnum mánuðum. Nýlega brann heil verslunarmiðstöð í Varsjá, en íkveikjan var rakin til Rússa. Í Bretlandi var heill spítali í lamasessi vegna netárása. Þetta er ný tegund af stríðsrekstri og varnarbandalag eins og NATO verður að laga sig að þeim veruleika.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
