„Við erum að beina sjónum að ákvæðunum sem eiga við þegar samningar eru ekki í gildi og heimildum Sjúkratrygginga til að gefa út sína eigin gjaldskrá.“
Þetta segir Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara, en hann hefur ásamt fulltrúum sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks, eins og lækna, tannlækna, sálfræðinga, ljósmæðra og talmeinafræðinga, sent frá sér yfirlýsingu þar sem áformum stjórnvalda um breytingar á lögum um sjúkratryggingar er mótmælt, sérstaklega varðandi 38. grein núgildandi laga 112/2008 sem fjallar um þátttöku í kostnaði þegar samningar eru lausir.
Í yfirlýsingunni segir: „Framkvæmd þessara áforma myndi fela í sér óheimilt inngrip í samningsfrelsi og atvinnuréttindi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks og yrði fordæmalaust valdaframsal til Sjúkratrygginga. Með breytingunum er m.a. gert ráð fyrir að Sjúkratryggingar geti einhliða ákveðið greiðslur og skilmála fyrir þjónustu án samninga, jafnframt því sem þjónustuveitendum yrði bannað að innheimta gjöld af sjúklingum þegar greitt er samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar.“
Gunnlaugur segir að á síðustu 10-15 árum hafi verið umtalsverður tími hjá fjölmörgum stéttum án samninga, eins og t.d. hjá sérgreinalæknum, sjúkraþjálfurum og tannlæknum. „Þessar heilbrigðisstéttir hafa lagt mikið af mörkum við að tryggja það að skjólstæðingar fái sínar endurgreiðslur með rafrænum reikningssamskiptum og öðru slíku og okkur þykir skjóta skökku við að svona stuttu eftir að við ljúkum þessu langa samningsleysi með samningum skuli koma lagafrumvarp í samráðsgáttinni sem snertir þætti sem ræddir voru í samningaviðræðunum, án þess að við höfum haft nokkra vitneskju um að það væri í burðarliðnum og án alls samráðs. Þess má einnig geta að sumar þessara stétta eru enn að vinna í því að koma á tvíhliða samningum fyrir hönd síns félagsfólks, líkt og sálfræðingar, á meðan ljósmæður og talmeinafræðingar eru í virkum samningaviðræðum.“
Gunnlaugur segir að þetta hafi komið aftan að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum, ekki síst í ljósi þess að það sé svo stutt síðan þessar stéttir eyddu gríðarlegum tíma í að semja við Sjúkratryggingar.
„Við erum líka að gagnrýna kröfur um breytt rekstrarform, þar sem festa á það inn að það þurfi að semja við hlutafélög eða einkahlutfélög, á meðan langstærstur hluti þjónustu okkar stétta, sem sinna mörg þúsund skjólstæðingum á mánuði hverjum, er undir merkjum einyrkja eða samlagsfélaga,“ segir hann og undirstrikar að þetta yrði strax mikil breyting í kröfum. „Við teljum að ávinningurinn sé ekki til staðar fyrir þjónustuveitingu og að þetta geti einnig leitt til aukins kostnaðar, t.d. ef það þarf að fara að vinna við að endurgera alla samninga, tryggingaskilmála og breyta rekstrarformum.“
Gunnlaugur segir að næsta skref allra þessara félaga sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks sé að senda inn formlegar umsagnir um frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda. „Svo munum við fylgja málinu eftir í kjölfarið í samstarfi við stjórnvöld og ráðuneyti.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
