Svarið kom á óvart: Allar bækurnar á ensku

Inga Huld Sigurðardóttir talar um sáran skort á ungmennabókum á …
Inga Huld Sigurðardóttir talar um sáran skort á ungmennabókum á íslensku. Ljósmynd/Aðsend

„Hvernig getum við eflt íslenskan orðaforða með lestri enskra bókmennta?”

Svo spyr Inga Huld Sigurðardóttir, grunnskólakennari og móðir tveggja ungmenna, í samtali við mbl.is.

Inga skrifar í dag grein í Morgunblaðið þar sem hún vekur athygli á þeirri staðreynd að í síðustu tvö skipti sem hún hafi sótt hverfisbókasafn sitt hafi allar nýjar ungmennabækur verið á ensku.

Skortur á bókum gleymist í umræðunni 

Hún segir tilefni greinarinnar vera umræðuna sem spratt upp í samfélaginu í síðustu viku eftir að Morgunblaðið greindi frá því að innan við þriðjungur framhaldsskólanema læsi nú skáldsögu eftir Halldór Laxness sem hluta af skyldunámi sínu.

„Það var í rauninni þessi umfjöllun um Laxness og þessi umræða sem er sífellt um hnignandi orðaforða og hugtakaskilning barna. Það er alveg rétt en kannski gleymdist svolítið í umræðunni skortur á bókum fyrir þennan aldurshóp.”

Í fyrrnefndri grein segir Inga frá því að hún hafi ávallt verið dugleg að sækja bókasöfn með börnum sínum og fengið þar góða þjónustu.

„Aðgangur að fjölbreyttum og spennandi barnabókum var frábær og börnin mín ólust upp umkringd íslenskum bókum. Bókasöfnin standa sig enn framúrskarandi vel. Nýjar bækur eru vel sýnilegar, aðgengi er gott og biðtími er stuttur þegar bækur eru ekki inni. Starfsfólk er hjálplegt og fagmannlegt,“ skrifar Inga.

Ítrekað engar nýjar bækur á íslensku 

Hún bætir þó við að eitthvað hafi breyst eftir að börn hennar, sem nú eru í 8. og 10. bekk, urðu unglingar.

„Í sumar gekk ég um ungmennadeild Amtsbókasafnsins á Akureyri og tók eftir að allar nýju bækurnar í hillunni voru á ensku,“ skrifar Inga.

„Ég spurði bókavörð hvar íslensku bækurnar væru. Svarið kom á óvart: „Ég vildi að ég gæti sagt þér að þær væru allar í útláni, en svo er því miður ekki. Það er bara ekkert nýtt gefið út.“

Nýlega fór ég aftur á Amtsbókasafnið, bjartsýn vegna þess að það styttist í jól og ég vonaðist til að sjá nýtt efni. Niðurstaðan var sú sama: Allar nýju ungmennabækurnar eru á ensku.“

Svona leit hilla nýrra ungmennabóka út síðustu skipti sem Inga …
Svona leit hilla nýrra ungmennabóka út síðustu skipti sem Inga Huld heimsótti Amtsbókasafnið. Ljósmynd/Aðsend

Getum ekki krafist þess að ungmennin lesi Laxness

Í kjölfarið spyr Inga Huld hvernig ungmenni eigi að byggja upp orðaforða og hugtakaskilning á íslensku þegar það er næstum ekkert nýtt og spennandi lesefni fyrir þeirra aldurshóp á tungumálinu.

„Við getum ekki krafist þess að ungmenni lesi Laxness ef við höfum ekki fyrst nestað þau með fjölbreyttum íslenskum bókum á unglingsárunum. Við getum ekki varðveitt íslenskuna og menningararfinn ef við fjárfestum ekki í því að búa til lifandi bókmenntahefð fyrir þá sem á eftir koma,“ skrifar hún.

Til að bregðast við þessari stöðu telur hún að ríkið þurfi að stíga inn í og gera útgáfu ungmennabóka að vænlegri kosti.

Ríkið þarf að efla útgáfuna

„Ég er líka markaðsfræðingur og veit að þetta er náttúrulega lítill markhópur,“ segir Inga Huld og bætir við:

„Salan er kannski ekki mikil þannig að ríkið þarf bara að koma betur að því að efla útgáfuna og styrkja þó að þessar bækur séu ekki skrifaðar með hagnað í huga.“

Þá bendir hún á að einhvern tíma gæti tekið að efla framboð á innlendu efni en til að brúa bilið þyrfti að stofna þýðingarsjóð fyrir ungmennabækur. Eins og staðan er í dag eru margar af vinsælustu ungmennabókum heimsins aldrei þýddar á íslensku.

Loks segir Inga að bókasöfn og skólar þurfi fjármagn til að fylgja útgáfu bóka eftir.

„Bókasöfnin þurfa fjárveitingar til að kaupa nóg af eintökum af nýjum íslenskum titlum og halda þeim sýnilegum. Grunnskólar eru vanfjármagnaðir og þurfa aukinn stuðning til að geta keypt og kynnt nýjar íslenskar ungmennabækur þegar þær eru gefnar út. Vilji er fyrir hendi – það vantar fjármagn.“

Hvenær við gefumst upp á að reyna að bjarga ástandinu?

Í lok greinar sinnar ítrekar Inga að það sé ekki nóg að benda bara á vandamálin.

„Ef við viljum breytingu þurfum við að fjárfesta í því að íslenskar ungmennabækur séu skrifaðar, gefnar út og kynntar. Það er ekki nóg að benda á vandamálið – við þurfum að taka ábyrgð og bregðast við.

Annars er spurningin ekki hvort ástandið muni halda áfram að versna – heldur hvenær við gefumst upp á að reyna að bjarga því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert