Tafaleikir og illa unnið frumvarp

Formaður Bændasamtakanna telur miður að sú hagræðing sem átti að verða í tengslum við breytingu á búvörulögum hafi ekki gengið eftir. Hagræðingin sem að var stefnt sneri að afurðastöðvum í kjötvinnslu. Trausti Hjálmarsson formaður fór yfir málið í Dagmálum í dag. Hann lýsir þeirri skoðun sinni að tafir og tafaleikir hafi leitt til þess að þessi hagræðing hafi ekki raungerst. Nú er þessi breyting dregin til baka í frumvarpsdrögum til breytingar á búvörulögum.

„Já, það sem að gerist, er að það er samþykkt frumvarp á Alþingi 2024. Þar sem að afurðastöðvum í hluta eða meirihluta eigu bænda er gefin heimild til þess að hafa með sér verkaskiptingu. Í slátrun og vinnslu og hlutun á kjöti og sameiningar eftir atvikum. Þetta mæltist misvel fyrir og þetta er undanþegið samkeppnislögum. En það er svo svolítið mikilvægt, til þess að átta sig á þeirri stöðu sem er búin að vera uppi í þessum kjötgreinum sem að byggja allt sitt á því að afurðastöðvarnar í kjötiðnaði lifi af. Er að, bændur eru búnir í áratugi að kalla eftir því að fá frekari heimildir til hagræðingar, vegna þess að við erum búin að vera í svo langan tíma með eiginlega gjaldþrota eða hálfgjaldþrota afurðastöðvar í kjötiðnaði, sem að hafa mátt sín lítils í því að bæta kjör bænda eða annað,“ útskýrði Trausti þegar farið er yfir aðdraganda þess að nýtt frumvarp er komið fram.

Hann segir að öllum hafi mátt vera ljóst að rekstur margra afurðastöðva hafi verið gríðarlega erfiður og óhagkvæmur. Húsunum verði að fækka og það þurfi að tæknivæða þau. Það séu áratugir jafnvel síðan að byggt hafi verið sláturhús fyrir stærri sláturvinnslur eða kjötvinnslur. Dæmi séu um að sláturhús séu orðin hundrað ára gömul.

„Og það segir sig sjálft að það verður ekki áfram haldið. Þess vegna tókum við undir það með fyrrverandi ríkisstjórn eða þeirri ríkisstjórn sem var á þessum tíma að þetta væri nauðsynleg aðgerð til þess að að lækka tilkostnað við framleiðslu, sölu, slátrun og dreifingu á lambakjöti, nautakjöti, hrossakjöti, bara nefndu það, til þess að koma til móts við þarfir bænda um leiðrétt verð til þeirra án þess þó að það myndi hafa aðeins neikvæð áhrif út á markaði.“

Fljótlega gerðist það eftir lagabreytinguna að Kaupfélag Skagfirðinga keypti Kjarnafæði og stefndi að sameiningu félaganna í anda nýbreyttra laga. Það var ákvæði í lögunum að slíkar sameiningar væru undanþegnar samkeppnislögum. Málaferli töfðu hins vegar þetta ferli.

„Það sem vantar í heildarsamhengi á þessu, það er þolinmæðin fyrir ávinningnum af þessum lögum. Það segir skýrt í frumvarpinu sem var samþykkt eða lögunum sem voru samþykkt 2024 að ávinningurinn af þessu skuli metinn 2028. Sem að mér finnst vera býsna mikilvægt ákvæði þarna inni til þess að til þess að geta þá farið í frekari breytingar eða frekari lagfæringar ef þetta er ekki að skila sér. Þá höfum við ekki gert þetta rétt. En það er engin þolinmæði fyrir því,“ segir Trausti.

Komst þetta einhvern tímann af stað?

„Þetta er bara ekkert þannig lagað almennt komið af stað. Og vegna þess að KS kaupir Kjarnafæði og Norðlenska, síðan fellur dómur í héraðsdómi þar sem lögin eru dæmd ógild, og þá er allt sett á ís og ekkert hægt að gera. Ekkert, engar frekari aðgerðir. Farið í það, er bara búið að kaupa þetta. Þetta bara heldur svona áfram. Það eru allir að vinna kjöt út um allt og sláturhúsin eru ennþá að slátra út um allt. En síðan fellur hæstaréttardómurinn núna í vor eða snemma á þessu ári þar sem að Hæstiréttur einfaldlega bara staðfestir það að þessi lög eru í gildi og þau eru löglega sett og þá er heimilt að fara af stað. Allar þessar tafir og þessir tafarleikir sem var farið í þarna milli 2024 og 2025 gerðu það að verkum að hagræðing fyrir haustið tuttugu og fimm náði engu flugi. Það náðist að gera allt of lítið. Og þetta tefur ávinninginn af frumvarpinu sem að var samþykkt, um eitt, tvö, þrjú ár.“

Tafaleikir, segirðu, og nú er komið fram nýtt frumvarp.

„Já.“

Þar sem að ef ég skil þetta rétt og treysti því að þú getir uppfrætt mig um það. Þar sem að þessi undanþága eða þessi breyting sem þú ert búinn að vera að lýsa varðandi kjötvinnslurnar og afurðastöðvarnar er felld niður.

„Já, það er sko frumvarpið eins og það birtist okkur í dag. Það er talað um og ég ætla, að segja, það er alveg góður hugur á bak við það að segjast ætla að styrkja stöðu bænda í virðiskeðjunni. Við skulum ekki gera lítið úr því, en það er alveg góður hugur þar á bak við. Hins vegar er afar erfitt að átta sig á því hvernig staða bænda verður betur tryggð í nýju frumvarpi vegna þess að á einum stað segir í frumvarpinu að fyrirtæki undir yfirráðum bænda eða meirihlutaeigu bænda séu undanþegin samkeppnislögum. Á öðrum stað í frumvarpinu er sú undanþága í rauninni skrifuð út aftur. Þannig að frumvarpið eins og það liggur fyrir núna er bara ekki nægilega vel unnið og það þarf að vinna það miklu betur. Það segir líka að þessi lög muni ekki ná yfir þá samninga, samkomulag og sameiningar sem er búið að eiga sér stað. Svo kemur á öðrum stað fram í frumvarpinu vísbendingar um það að Samkeppniseftirlitið hafi slík völd að það geti jafnvel farið fram á að þessum samningum og samrunum sé skipt upp aftur. Þannig að það er svo margt óskýrt í þessum lögum sem er bara mjög erfitt að fallast á. Í þessum frumvarpsdrögum eins og þau eru sett fram í dag er þetta bara illa unnið. Þetta mætti gera talsvert betur.“

Trausti Hjálmarsson er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag. Þáttinn í heild sinni geta áskrifendur nálgast í heild sinni með því að smella á linkinn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert