Vegagerðin mun hefja sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit í Fáskrúðsfjarðargöngum á morgun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnunni en þar segir að sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit byggi á því að meðalhraði ökutækis sem fer tiltekna vegalengd er reiknaður út með því að deila í vegalengdina með tíma.
Þá vinna tvær myndavélar saman fyrir hvora akstursstefnu, þar sem önnur er staðsett í byrjun kaflans en hin í enda kaflans. Teknar eru myndir af öllum ökutækjum og búnaðurinn greinir hversu lengi ökumaður var að aka á milli myndavélanna og reiknar þannig út meðalhraða ökutækisins á kaflanum.
Ef útreiknaður hraði er meiri en leyfilegt er telst viðkomandi ökumaður brotlegur og eftir það sér lögregla um frekari úrvinnslu og álagningu sekta.
