„Þetta hafa verið gagnlegir dagar og við íslensku þingmennirnir skiptum með okkur nefndum og sátum hér í ólíkum nefndum á þinginu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is, stödd í slóvensku höfuðborginni Ljubljana á lokadegi ársfundar NATO-þingsins sem hún sótti við fjórða þingmann og einn starfsmann skrifstofu Alþingis.
„Öll umræðan og tónninn í umræðunni verður auðvitað alvarlegra eftir því sem tímanum líður og með hverjum fundi á þessum vettvangi,“ segir Þórdís og kveður svokallaðar fjölþátta ógnir hafa verið áberandi þema ársfundarins.
„Það er hægt að ræða það fram og til baka hvað eigi að kalla þær en það sem er skýrt er að þær eru vaxandi og þær verða alvarlegri og við þurfum að búa okkur undir að gengið verði lengra,“ heldur þingmaðurinn áfram.
Þórdís segir einnig mikla umræðu hafa farið fram um fjárfestingar og tækniþróun „og auðvitað þá staðreynd að Úkraínumenn eru með mestu nýsköpunina og tækniþróunina í dag enda í varnarbaráttu og margt hægt að læra af þeim – og ekki síður mikilvægt að styðja við þá varnarbaráttu eins og Íslendingar gera“, segir hún.
Sjálfir Bandaríkjamenn sátu heima og áttu ekki fulltrúa á ársfundinum enda kreppir skórinn nú mjög þar í landi vegna lokana ríkisstofnana í kjölfar þess að þingið náði ekki saman um fjáraukalög fyrir miðnætti 30. september. „Maður fann alveg fyrir fjarveru þeirra þótt það sé smáatriði í samhengi við þær afleiðingar sem allsherjarlokanir hafa á almenning og grundvallarstofnanir þar í landi,“ segir Þórdís Kolbrún.
Nú hefur þú marga fjöruna sopið sem utanríkisráðherra, hvað finnst þér um áætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að ætla að senda Tomahawk-flugskeyti til Úkraínu, hreinræktuð árásarvopn en ekki varnarvopn?
„Ég er löngu búin að læra að bíða og sjá hvað forseti Bandaríkjanna raunverulega gerir, ekki hvað hann segir, en ég veit að [Volódimír] Selenskí forseti Úkraínu hefur átt fundi með honum, tvo bara síðustu daga, og Selenskí nefndi það sérstaklega í sinni ræðu í dag, sem hann flutti um fjarfundabúnað, að Úkraínumenn byndu miklar vonir við að þetta gangi en við verðum bara að bíða og sjá og auðvitað gengur þetta út á að geta stöðvað sókn Rússa í stríðinu.
Að draga úr fjárhagslegri getu þeirra til að halda áfram árás sinni á Úkraínu, almenna borgara, innviði og landið allt. Úkraínumenn hafa fram til þessa staðið undir því trausti þegar kemur að notkun vopna á hernaðarinnviði Rússlands annars vegar og orkuinnviði hins vegar, sem þeir fjármagna stríðið með. En eins og ég segi, við verðum bara að sjá hvað raunverulega gerist, ekki hvað sagt er,“ svarar hún.
Íslenski hópurinn heldur heim á leið í dag við lok ársfundarins, nema Þórdís Kolbrún sem fer til London vegna stöðu sinnar sem sérstakur erindreki fyrir úkraínsk börn.