Umhverfismat vegna Sundabrautar birt

Vegagerðin hefur mælt með því að brú verði lögð við …
Vegagerðin hefur mælt með því að brú verði lögð við gerð Sundabrautar. Ljósmynd/Vegagerðin

Skipulagsstofnun hefur nú birt umhverfismatsskýrslu vegna Sundabrautar og gefst almenningi og hagaðilum tækifæri að gera athugasemdir við skýrsluna til loka nóvember. Á næstu vikum verða einnig haldnir sex kynningarfundir þar sem umhverfismatið verður kynnt.

Umhverfismatsskýrslan, sem unnin er af Vegagerðinni og ráðgjöfum hennar, er nú aðgengileg í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar en fyrir helgi hafði verið greint frá sjónarmiði Vegagerðarinnar. Mælir stofnunin með því að brú verði frekar fyrir valinu en jarðgöng. 

„Brúarkostir töluvert hagkvæmari“

„Við lagningu Sundabrautar eru brúarkostir töluvert hagkvæmari í framkvæmd og rekstri en göng og uppfylla markmið framkvæmdarinnar betur,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar vegna umhverfismatsins.

„Sundabraut er fyrirhuguð samgöngubót á höfuðborgarsvæðinu milli Sæbrautar og Kjalarness sem verið hefur í umræðu og undirbúningi um lengri tíma. Í umhverfismatinu eru bornir saman tveir meginvalkostir við þverun Kleppsvíkur: Sundabrú og Sundagöng, auk þriggja valkosta fyrir legu brautarinnar í Gufunesi. Þá eru mismunandi valkostir fyrir hæð og lengd Sundabrúar til skoðunar auk þess sem áhrif eru metin af ólíkum valkostum fyrir útfærslu gatnamóta á Sæbraut.

Skýrslan greinir áhrif ólíkra leiða á umhverfi, samfélag og náttúru og mun verða grundvöllur ákvörðunar um leiðarval.“

Myndi styðja betur við gangandi og hjólandi vegfarendur

Í tilkynningu Vegagerðarinnar segir að Sundabrú myndi styðja betur við gangandi og hjólandi vegfarendur sem og almenningssamgöngur. Hún hafi meiri sjónræn áhrif og myndi takmarka siglingar um Sundahöfn. Sömuleiðis myndi hún tengja Grafarvog og hafnarsvæðið betur inn á stofnvegi.

Þá myndi hærri brú hafa meiri áhrif á ásýnd en tryggja siglingar stærri skipa. Lægri brú væri hagkvæmari en myndi hafa meiri áhrif á starfsemi í Sundahöfn.

„Sundagöng hafa minni áhrif á ásýnd og hafnarstarfsemi, en eru dýrari í framkvæmd og rekstri. Þau styðja síður við fjölbreytta ferðamáta. Auk þess er þörf á aðgerðum til að draga úr loftmengun við gangamunna. Göng tengja Grafarvog og hafnarsvæðið síður inn á stofnvegi.“

Einnig kallað eftir umsögnum frá lögbundnum umsagnaraðilum

„Umhverfismatsskýrsla og kynning hennar er mikilvægur áfangi í undirbúningi og vali á milli ólíkra leiða við lagningu Sundabrautar. Spilar þar saman mat á áhrifum og hagkvæmni framkvæmdarinnar. Við hlökkum til uppbyggilegrar umræðu um fyrirliggjandi kosti og að geta innan tíðar hafið formlegt útboðsferli við það sem er líklega umfangsmesta einstaka verkefni tengt samgöngubótum sem ráðist hefur verið í hér á landi,“ er haft eftir Bergþóru Þorkelsdóttir, forstjóra Vegagerðarinnar.

Umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar hefur nú verið gerð aðgengileg í Skipulagsgáttinni og er almenningi veittur sex vikna frestur til að skila inn umsögnum við hana, en samhliða því leitar Skipulagsstofnun einnig umsagna frá lögbundnum umsagnaraðilum og leyfisveitendum.

„Á kynningartímabilinu mun Vegagerðin í samstarfi við Reykjavíkurborg kynna niðurstöður umhverfismatsins með opnum kynningarfundum, sem verða sem hér segir:

20. október kl. 18:00-19:30. Klébergsskóli, Kjalarnesi

21. október kl. 17:30-19:00. Hilton Reykjavík Nordica, Laugardal

22. október kl. 17:30-19:00. Borgaskóli, Grafarvogi.

Auk þess stendur Vegagerðin fyrir eftirfarandi kynningarfundum:

23. október kl. 17:30-19:00. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ

24. október kl. 9:00-10:30. Vegagerðin, Suðurhrauni 3 í Garðabæ. Fundurinn verður einnig í streymi.

4. nóvember kl. 19:30-21:00. Ráðhúsinu, Akranesi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert