Bæjarstjórar Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness segja ekkert ákall vera frá íbúum um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þeir telja meiri ávinning felast í auknu samstarfi sveitarfélaganna fremur en formlegum sameiningum.
Umræðan um sameiningar hefur vaknað á ný eftir að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra nefndi hugmyndir þess efnis í hagræðingarskyni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Bæjarstjórarnir sem Morgunblaðið ræddi við segja sveitarfélögin vel rekin, íbúana almennt ánægða og litla þörf á að breyta núverandi skipan.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir hagkvæmni stórrekstrar ekki endilega eiga við í sveitarstjórnarmálum og að ákjósanlegasta stærð sveitarfélaga sé um 40 til 50 þúsund íbúar. Hún segist m.a. ekki sjá kosti í sameiningu við önnur sveitarfélög á svæðinu. Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, tekur í sama streng og bendir á að stærri einingar geti fjarlægt þjónustu frá íbúum og dregið úr gæðum hennar.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, telur kröftum betur varið í að efla samstarf sveitarfélaganna, til dæmis á sviði upplýsingatækni og gervigreindar. Slíkt samstarf geti skapað meiri hagræðingu en formleg sameining.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, segir hugmyndir um sameiningu engan hljómgrunn hafa meðal Seltirninga. „Við höfum alltaf staðið vörð um sjálfstæði okkar,“ segir hann og bendir á að sveitarfélagið sé sjálfbært og reki eigin innviði, þar á meðal hitaveitu.
Þá segir Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, mikilvægt að gæta meðalhófs í umræðunni og að stærð sveitarfélaga tryggi hvorki sjálfkrafa betri rekstur né þjónustu. „Fyrst og síðast eiga íbúarnir að ráða för.“
Nánar má lesa um málið á bls.6 í Morgunblaðinu í dag og í Mogga-appinu