Yfir þriðjungur starfsfólks finnst það a.m.k. einu sinni í viku vera útkeyrt í lok vinnudags ef marka má niðurstöður rannsóknar Prósents á kulnun meðal Íslendinga á vinnumarkaði.
Nærri helmingur starfsfólks finnur samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar fyrir þreytu a.m.k. einu sinni í viku þegar það fer á fætur á morgnana og þarf að takast á við nýjan vinnudag.
Prósent hefur framkvæmt rannsóknina í janúar ár hvert síðan 2020 og er nú kominn samanburður á niðurstöðum fyrir árin 2020-2025. Niðurstöðurnar sýna að afköst í starfi minnka marktækt á milli ára.
Niðurstöður fyrir árið 2025 leiddu meðal annars í ljós að:
37% starfsfólks finnst það vera útkeyrt í lok vinnudags einu sinni í viku eða oftar, 26% nokkrum sinnum í mánuði og 36% einu sinni í mánuði eða sjaldnar.
46% starfsfólks finnur fyrir þreytu þegar það fer á fætur á morgnana og þarf að takast á við nýjan vinnudag einu sinni í viku eða oftar, 19% finnur fyrir þreytu nokkrum sinnum í mánuði og 36% mánaðarlega eða sjaldnar.
Árið 2023 fannst 67% starfsfólks það leggja mikið af mörkum til starfsemi vinnustaðar daglega en hlutfallið árið 2025 er 60%.
Fjöldi vinnudaga sem svarendur leggja mikið af mörkum til starfsemi vinnustaðarins lækkar marktækt á milli tímabila úr 182 dögum í 174.
Rannsóknarmódelið sem notast er við til mælinga er 16 spurninga útgáfa af Maslach kulnunarmódelinu (The Maslach Burnout Inventory, MBI), fyrsta vísindalega þróaða mælikvarðanum fyrir kulnun sem er mikið notaður víða um heim.
Mældar eru þrjár víddir; tilfinningaleg örmögnun (e. emotional exhaustion), tortryggni (e. cynicism) og afköst í starfi (e. professional efficacy). Hver spurning er greind eftir starfi, fjölda ára í núverandi starfi, fjölda vinnustunda á viku, markaði (almennur, opinber og þriðji geirinn), kyni, aldri, búsetu, menntunarstigi, fjölda barna á heimili og tekjum.
Prósent hefur framkvæmt rannsóknina í janúar ár hvert síðan 2020 og er nú kominn samanburður á niðurstöðum fyrir árin 2020, 2021, 2022, 2023, 2024 og 2025.
Hver rannsókn byggir á um 900 svörum einstaklinga 18 ára og eldri á öllu landinu sem eru á vinnumarkaðinum.