Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, átti fund með Xi Jinping, forseta Kína, í Höll alþýðunnar í Peking í morgun. Fundurinn er hluti af dagskrá opinberrar heimsóknar sem hófst á sunnudag og lýkur á föstudag.
Á fundinum var m.a. rætt um stöðu alþjóðamála, græn orkuskipti, jafnréttismál og samskipti og samvinnu ríkjanna tveggja.
Á vef forseta Íslands segir að Halla hafi í máli sínu lagt áherslu á lykilatriði í utanríkisstefnu Íslands, þar á meðal stuðning þjóðarinnar við Úkraínu og mikilvægi þess að friður kæmist á í Gaza og unnið að tveggja ríkja lausn sem tryggði sjálfstæði Palestínu. Hún ræddi einnig afdráttarlausan stuðning Íslands við varðveislu og eflingu mannréttinda.
Í tengslum við fundinn í morgun sendu ríkisstjórnir beggja landa frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem lögð er áhersla á enn frekar samstarf á sviði jarðvarma sem lið í að sporna við loftslagsbreytingum. Einnig var undirritaður nýr tvíhliða samningur sem auðveldar útflutning á fiskeldisafurðum frá Íslandi til Kína.
Heimsókn forseta Íslands hefur vakið talsverða athygli í Kína og fréttir af heimsókn Höllu ratað inn á forsíður blaða í Kína.
Fundurinn í Höll alþýðunnar var hálftíma langur. Þorbjörg Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sat einnig fundinn af hálfu Íslands, ásamt Þórir Ibsen sendiherra og fjórum íslenskum embættismönnum.