Blæs á gagnrýni BSBR

Ásdís er gestur í nýjasta þætti Spursmála þar sem hún er innt svara við harkalegri gagnrýni BSRB á hið svokallaða Kópavogsmódel. Hafa samtökin haldið þeirri gagnrýni á lofti allt frá því að módelið var innleitt árið 2023. Hins vegar hefur sú gagnrýni færst í aukana eftir að ný skýrsla var birt á vettvangi Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins sem BSRB og ASÍ halda úti.

Í þeirri rannsókn fer kynjafræðingurinn dr. Sunna Símonardóttir hörðum orðum um aðferðafræðina sem innleidd hefur verið í Kópavogi. Byggir hún gagnrýnina á  viðtölum við tuttugu foreldra leikskólabarna í Kópavogi sem hún tók viðtöl við, fimmtán konur og fimm karla.

Ekkert jákvætt við kerfið

Í skýrslunni, sem er 41 síða er næstum ekki að finna einn einasta jákvæða punkt varðandi breytingarnar og engu líkara en að með innleiðingu kerfisins hafi allt verið unnið gegn hagsmunum foreldra og leikskólabarna.

Ásdís hafnar þessari nálgun og segir að kannanir sem Kópavogsbær hefur sjálfur látið framkvæma bendi í aðra átt. Segir hún mun meira mark takandi á slíkri könnun en viðtölum við tuttugu einstaklinga.

Kemur þetta harðar niður á konum?

Þá segir hún ekki rétt sem BSRB hafi haldið fram að kerfisbreytingin komi harðar niður á konum og þó einkum konum í láglaunastörfum. Kannanir bendi til að sá hópur sé einna ánægðastur með nýja kerfið.

Þó viðurkennir hún að Kópavogsmódelið sé ekki gallalaust og að unnið hafi verið að betrumbótum á því síðustu misseri enda sé þar um mannanna verk að ræða sem eðlilegt sé að laga að breytilegum aðstæðum og á grunni reynslunnar sem af því fæst.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB,
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðtalið við Ásdísi má sjá í heild sinni hér að neðan. Tekið skal fram að Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB var boðið til viðtalsins einnig en tjáði hún Morgunblaðinu að hún væri of önnum kafin við undirbúning kvenna- og kváraverkfalls sem boðað hefur verið til þann 24. október næstkomandi til þess að geta orðið við því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert