Bruninn á Siglufirði: Hafa ekki farið inn í húsið

Primex-verksmiðjan á Siglufirði í morgun.
Primex-verksmiðjan á Siglufirði í morgun. mbl.is/Sigurður Ægisson

Starfsfólk Primex hefur ekki enn fengið aðgang að verksmiðju fyrirtækisins á Siglufirði eftir að eldur kviknaði í henni í gærkvöldi og því er erfitt að meta tjónið að svo stöddu.

Þetta segir forstjórinn Vigfús Rúnarsson í samtali við mbl.is.

Primex er íslenskt líftæknifyrirtæki sem framleiðir meðal annars snyrtivörur og sáravörur undir merkinu ChitoCare en þær vörur eru framleiddar í umræddri verksmiðju.

Eldurinn kviknaði um klukkan 20 í gærkvöldi en slökkvistarf stóð í alla nótt. Því er nú að mestu lokið en slökkvilið er enn á vettvangi.

Erfitt er að meta tjónið sem stendur.
Erfitt er að meta tjónið sem stendur. mbl.is/Sigurður Ægisson

Mjög erfitt að segja

„Við sjáum að eldurinn er í afmörkuðum hluta hússins en hvað það svo þýðir fyrir okkur, það vitum við ekki enn þá,“ segir Vigfús.

Vettvangurinn er enn lokaður og enginn frá fyrirtækinu hefur enn fengið að fara inn í húsnæðið.

„Það er mjög erfitt að segja eitthvað fyrr en við förum inn og getum bara skoðað okkar búnað og húsnæðið.“

Primex er íslenskt líftæknifyrirtæki sem framleiðir meðal annars snyrtivörur og …
Primex er íslenskt líftæknifyrirtæki sem framleiðir meðal annars snyrtivörur og sáravörur undir merkinu ChitoCare. Vigfús Rúnarsson er annar maður frá vinstri á myndinni en með honum eru Þórhallur Guðmundsson, Helene Lauzon, Sigríður Vigfúsdóttir og Ólafur Björnsson. Ljósmynd/Aðsend

Upptök rannsökuð 

Spurður hvort eitthvað liggi fyrir um upptök eldsins segir Vigfús rannsókn á þeim nú standa yfir.

„Það er bara verið að rannsaka það og það er ekkert sem við vitum strax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert