Einar Jóhannes Guðnason, varaþingmaður Miðflokksins, sækist eftir því að leiða lista flokksins í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Einari. Hann tilkynnti samflokksmönnum sínum þetta á landsþingi Miðflokksins um liðna helgi.
„Það kemur kannski spánskt fyrir sjónir margra að opinbera þetta 7 mánuðum fyrir kosningar en raunveruleikinn er að það er gríðarlegur skortur á málsvara margra Kópavogsbúa í umræðunni. Má þar sérstaklega nefna þegar kemur að Borgarlínu og skipulagsmálum, sem einkennast af ofurþéttingu og aðför að einkabílnum sem maður vonaði að næði ekki út fyrir Reykjavík,“ skrifar Einar.
Hann segir að mikil tækifæri séu til uppbyggingar í Kópavogi og trúir því að skynsemisstefna Miðflokksins sé það sem þurfi til að tryggja að það verði best að búa í Kópavogi.
Einar segir að Miðflokksdeild Kópavogs sé þegar farin að undirbúa sig fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
